Skipuleggja Veðurstofuhæð og Sjómannaskólareit

Í dag voru undirritaðir samningar um að mælar Veðurstofu Íslands …
Í dag voru undirritaðir samningar um að mælar Veðurstofu Íslands verði færðir til vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á lóðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja vinnu við gerð skipulags á Veðurstofuhæð og Sjómannaskólareit, samkvæmt samkomulagi við ríkið um lóðirnar tvær. Stefnt er að uppbyggingu íbúða á reitunum.

Færa þarf veðurmæla Veðurstofu Íslands til vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á Veðurstofuhæð og Reykjavíkurborg mun kosta færslu núverandi veðurmæla austan megin við hús hennar yfir á nýja lóð vestan megin við Veðurstofuhúsið.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Árni Snorrason veðurstofustjóri undirrituðu í dag samning þess efnis og einnig um uppbyggingu veðurstöðvakerfis í borginni, en að sögn Dags þýðir það að mælinet Veðurstofu Ísland í borginni þéttist umtalsvert.

Færa þarf til veðurmæla Veðurstofu Íslands vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á …
Færa þarf til veðurmæla Veðurstofu Íslands vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á reitnum.

Á annað hundrað íbúðir á hvorum reit

Dagur segir í samtali við mbl.is að fyrirhugað sé að skipuleggja íbúðir sem henti tekjulágum hópum, ungu fólki og námsmönnum, en vinnsla deiliskipulags er á frumstigi og að sögn Dags eru „væntanlega einhverjar vikur“ þar til einhverjir skipulagsuppdrættir líta dagsins ljós.

„Þetta verður íbúðarhúsnæði fyrst og fremst, litlar og meðalstórar íbúðir. Skipulagið er þegar farið að huga að því og farið að setja fram forsendur og þetta gætu orðið eitthvað á annað hundrað íbúðir á hvorum reit fyrir sig,“ segir Dagur, en hann segir fyrirhugað að meðal annars verði stúdentaíbúðir á Sjómannaskólareitnum.

Tækniskóli Íslands stendur á Sjómannaskólareitnum svokallaða og þar segir borgarstjóri …
Tækniskóli Íslands stendur á Sjómannaskólareitnum svokallaða og þar segir borgarstjóri að byggðar verði stúdentaíbúðir.

Borgarstjóri segir þetta langþráð skref. „Við höfum kallað eftir því að lóðir sem ríkið hefur verið með, sumar áratugum saman, án þess að ætla sér að byggja á þeim, komi til uppbyggingar til þess að mæta þörf fyrir húsnæði í borginni. Það er frábært að þessir tveir reitir komi núna.“

Byggir á viljayfirlýsingu ríkis og borgar frá því í fyrra

Samkomulag um að borgin fái lóðirnar tvær til uppbyggingar byggir á viljayfirlýsingu sem borgarstjóri og Benedikt Jóhannesson þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu í júní s.l. um að vinna sameiginlega að þróun og skipulagningu á lóðum í Reykjavík sem eru í eigu eða umráðum ríkisins.

Ríkið hefur haft landsvæðið í kring um Veðurstofu Íslands á leigu frá borginni en nú skilar það þeim hluta leigulóðarinnar sem Veðurstofan þarf ekki að nota undir starfsemi sína til framtíðar.

Svipað gildir um hinn svonefnda Sjómannaskólareit, sem borgin úthlutaði ríkinu á sínum tíma vegna uppbyggingar Sjómannaskólans, sem nú heitir Tækniskóli Íslands. Ríkið skilar nú þeim hluta leigulóðarinnar sem skólinn þar ekki að nýta til uppbyggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert