Hefur bara hafnað Händel

Guðni Már Henningsson hefur tekið um fimmtán þúsund símtöl í …
Guðni Már Henningsson hefur tekið um fimmtán þúsund símtöl í útvarpi. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Það verður tilfinningaþrungin stund í kvöld, laugardagskvöld, þegar hinn gamalreyndi útvarpsmaður Guðni Már Henningsson kveður hlustendur Næturvaktar Rásar 2 í hinsta sinn. Í næstseinasta þættinum um páskana mátti glöggt heyra að þeir eiga eftir að sakna vinar síns; einn hlustandi beygði hreinlega af þegar hann náði inn í beina útsendingu. Góðar kveðjur fylgja Guðna Má sem er að flytja til Tenerife eftir helgina.

„Ég var ráðinn 3. maí 1994 og hef stjórnað Næturvaktinni óslitið síðan, fyrir utan tvö ár sem ég bjó í Svíþjóð,“ segir Guðni Már. „Ég var líka með Popplandið í mörg ár og nú er einfaldlega komið nóg. Það er kominn tími á mig í útvarpi. Þetta eru auðvitað blendnar tilfinningar. Í aðra röndina er ég mjög feginn að losna en á móti kemur að ég veit að Næturvaktin er í senn óskalagaþáttur og vinalína og það verður örugglega skrýtið að kveðja alla þessa dyggu hlustendur í síðasta skipti.“

Guðni Már segir vaktina hafa verið farna að rífa í. „Ég er ekki fertugur lengur og það er dálítið síðan ég fór að finna að Næturvaktin var farin að fara illa með mig um helgar.“

Símtölin, þar sem hlustendur hringja inn í beina útsendingu, eru snar þáttur í Næturvaktinni. „Ég var að reikna þetta út um daginn og telst til að ég hafi tekið fimmtán þúsund símtöl gegnum tíðina. Það er slatti,“ segir Guðni Már og bætir við að stór hluti útsendingarinnar fari í að leita að óskalögum fyrir hlustendur og adrenalínflæðið í hljóðverinu sé fyrir vikið mikið.

Fjölbreytni í lagavali er óvíða meiri í útvarpi en á Næturvakt Rásar 2 enda ráða hlustendur þar mestu. „Það er það skemmtilega við Næturvaktina, henni er ekkert óviðkomandi. Þetta hefur verið ótrúleg blanda af tónlist gegnum árin,“ segir Guðni Már. „Allt á erindi og öll þessi ár hef ég bara einu sinni neitað að spila lag. Það var fyrir nokkrum mánuðum þegar eldri maður hringdi inn og bað um aríu eftir Händel. Nú hef ég ekkert á móti Händel, hlusta stundum á hann heima, en hann passar ekki á Næturvakt. Frekar á Rás 1. Þess utan kunni ég ekki að leita að Händel í safni Ríkisútvarpsins. Það sem ég mun sakna mest er að geta ekki lengur spilað tónlistina sem fólk heyrir ekki annars staðar.“

Greinin í heild sinni birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert