Kvennaframboð býður fram í vor

Ekki kemur fram í tilkynningunni hver stendur á bak við …
Ekki kemur fram í tilkynningunni hver stendur á bak við framboðið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breiðfylking kvenna hittist í dag og ákvað að bjóða fram í borginni í vor. Markmið framboðsins er að setja femínísk málefni á oddinn í Reykjavík. Kvennaframboðið er umfaðmandi afl sem mun styðja við öll þau mikilvægu réttlætismál sem teljast femínísk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kvennaframboðinu, en ekki er greint frá því hvaða konur standa á bak við framboðið.

„Innblásnar af kraftmiklum hreyfingum eins og #MeToo, #karlmennskan, hræringum í stéttarbaráttunni og eigin reynsluheimi ætlum við að bjóða fram afl sem boðar aðgerðir í málefnum sem tryggja öryggi, aðgengi og áhrif allskonar kvenna og jaðarsettra hópa í samfélaginu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að kvennaframboð sé ávöxtur uppbyggingarvinnu sem fram hefur farið eftir að baráttufundur kvenna var haldinn á Hótel Sögu í október síðastliðnum.

„Þar hittist stór hópur kvenna í réttlátri reiði yfir því bakslagi sem varð í jafnrétti eftir Alþingiskosningarnar í október síðastliðnum. Þrátt fyrir að kynferðisofbeldismál hafi sprengt síðustu ríkisstjórn og kosningarnar farið fram í miðri #MeeToo byltingu, einni áhrifamestu kvennabyltingu okkar tíma, komust femínísk málefni varla á dagskrá í kosningabaráttunni. Við erum hér til að sjá til þess að slíkt gerist ekki aftur. Við erum hér til að sýna fram á að það er ekki áhugaleysi kvenna á stjórnmálum sem veldur því að konum fækkaði á Alþingi í vor.“

Laugardaginn 14. apríl verður boðað til framhaldsstofnfundar þar sem konur með áhuga á þátttöku í sveitarstjórnarmálum eru hvattar til að mæta.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert