Vilja segja upp tollasamningi við ESB

Þingmaður Miðflokksins telur tollasamning Íslands við Evrópusambandið um landbúnaðarvörur óhagstæðan.
Þingmaður Miðflokksins telur tollasamning Íslands við Evrópusambandið um landbúnaðarvörur óhagstæðan. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Þingmenn Miðflokksins vilja segja upp tollasamningi um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið, en flokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis. Birgir Þórarinsson, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, segir í samtali við mbl.is að í samningnum halli verulega á Íslendinga.

Í greinargerð tillögunnar er sagt að forsendur samningsins séu brostnar og að skortur sé á úttekt á áhrifum samningsins á innlenda framleiðslu búvara. Enn fremur segir að samningurinn sé óhagstæður þar sem hann heimili mun meiri innflutning ákveðinna búvara til Íslands frá Evrópusambandinu en frá Íslandi til Evrópusambandsins.

Íslenskur landbúnaður ekki samkeppnishæfur

Flutningsmenn telja forsendubrest hafa átt sér stað frá því að samningurinn var gerður. „Úrsögn Bretlands úr ESB gerir það að verkum að stærsta og besta markaðssvæði okkar kemur til með að hverfa úr samningnum á samningstímanum“ er meðal þess sem kemur fram í greinargerð tillögunnar.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, vill segja upp tollasamningi við ESB.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, vill segja upp tollasamningi við ESB. Ljósmynd/Alþingi.is

„Í samtölum við bændur hefur komið fram að þeir hafa áhyggjur af þessum samningi,“ segir Birgir. Hann bætir við að vandamálið sé fyrst og fremst að lítið samráð hafi verið haft við bændur um samninginn.

Hann segir „margt í þessum samningi sem hefði mátt gera betur að mínum dómi. Ég er alveg talsmaður samkeppni og bændur hafa sagst það líka, en þessi samningur er bara ójafn. Það hefur heldur ekki verið gerð úttekt um hvaða áhrif samningurinn hefur á innlenda framleiðslu.“

Samkvæmt Birgi er íslenskur landbúnaður að miklu leyti ekki samkeppnisfær vegna þeirra aðstæðna sem landbúnaðurinn býr við.

Telja ekki tekið tillit til gengisbreytinga

Þingmenn Miðflokksins telja ekki tekið tillit til gengisbreytinga í samningnum. Spurður um hvort það tíðkist að það séu ákvæði eða fyrirvarar um gengisbreytingar í viðskiptasamningum Íslands við önnur ríki, segist Birgir „ekki þekkja það nákvæmlega en engu að síður mikilvægt atriði í samningsgerð sem þessari“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert