Héngu aftan á strætisvagni á ferð

Til stendur að skoða hvort hægt sé að loka fyrir bil aftan á strætisvögnum sem myndast þegar hlera sem liggur yfir vél vagnsins er lokað. Tvö tilvik hafa komið upp á síðustu fjórum vikum þar sem ungmenni hafa hangið aftan á strætisvagni á meðan hann er á ferð.
mbl.is barst myndband af tveimur drengjum sem hanga aftan á strætisvagni á höfuðborgarsvæðinu og má sjá myndbandið hér að ofan.  

„Þeir eru að hanga aftan í hlera sem liggur yfir vélinni á vagninum. Mætti segja að þetta sé húddið á bílnum. Þessum hlera er lyft upp og þegar hann er lokaður þá myndast smá bil og auðvelt er að ná góðu handtaki þarna aftan á,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við mbl.is.

Hann segist ekki vita til þess að slys hafi orðið vegna uppátækisins. „Við höfum blessunarlega ekki heyrt um nein slys vegna þessa og við tölum alla frá því að prófa þetta, enda fylgir þessu mikil hætta.“ Hann beinir því einnig til foreldra að ræða við börn sín um hættuna sem fylgir því að stökkva upp á strætisvagna á ferð.

„Við erum að skoða það hvort ekki sé hægt að loka fyrir þetta fyrir þetta bil og koma þannig í veg fyrir að fólk nái góðu taki þarna aftan á bílnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert