Gefur lítið fyrir umsögn Samkeppniseftirlitsins

Einar segir að breytingin sem Viðreisn leggi til myndi í …
Einar segir að breytingin sem Viðreisn leggi til myndi í flestum tilfellum ekki leiða til lægra verðs. mbl.is/Jim Smart

Þótt Samkeppniseftirlitið gefi í skyn að verð muni lækka með því að gera akstur leigubíla mun frjálsari en er í dag þá mun það í flestum tilfellum ekki vera niðurstaðan. Þetta segir Einar Árnason, formaður Bifreiðastjórafélagsins Fylkis, en í gær var greint frá umsögn Samkeppniseftirlitsins við þingsályktunartillögu Viðreisnar um þetta mál.

Einar segir að mikil samkeppni sé í gangi á leigubílamarkaðinum í dag og að ef reksturinn væri gefinn alveg frjáls og að það væri ekki lengur stöðvaskylda væri mun auðveldara fyrir einstaklinga að rukka það sem þeir vildu og enginn væri að fylgjast með því að ekki væri okrað til dæmis á ferðamönnum.

Bendir hann á að Samkeppniseftirlitið hafi horft til nágrannalanda okkar og sagt að hér væru strangari reglur í tengslum við eftirlitshlutverk stöðvanna en þar og að ekki væri þörf á því. Segir Einar þetta rangt og að þessar breytingar í Svíþjóð hafi endað með hörmungum. Þar séu farþegar ekki jafn öruggir og hér á landi. „Það þarf að passa öryggi farþega, það er númer 1,2 og 3,“ segir hann.

Einar vísar einnig til þess að nefnd um framtíð leigubíla sé nú á lokametrunum með að klára skýrslu þar sem horf sé til þess að opna markaðinn meira en nú er. Það sé þó ekki farið jafn langt og Viðreisn leggi til. Þannig hafi ESA meðal annars heimtað að ekki væru lengur takmörk á fjölda leigubílaleyfa og að það stefni í það.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir að þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna hafi leigubílum ekki fjölgað að ráði. Einar segir að ástæða þess sé að fjölgun ferðamanna fari að mestu í bílaleigubíla en ekki leigubíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert