Viðreisn í oddastöðu

Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.
Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur. Haraldur Jónasson / Hari

Þegar rúmar sex vikur eru í sveitarstjórnarkosningar eru línur aðeins farnar að skýrast í borginni. Samkvæmt könnunum eru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn með mesta fylgið en meirihlutinn heldur ekki velli.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur ræddi málin í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í morgun. Hann segir að líkast til verði Viðreisn í lykilstöðu þegar kemur að því að mynda meirihluta og eins og staðan er núna er flokkurinn líklegri til að vilja vinna með gamla meirihlutanum en Sjálfstæðisflokknum. „Það má skipta þessu í tvær blokkir. Núverandi meirihluti, með eða án Viðreisnar, og svo Sjálfstæðisflokkurinn. Viðreisn hefur í borgarmálum talað á svipuðum nótum og meirihlutinn. Kannski má skipta Bjartri framtíð út fyrir Viðreisn, sem er í algjörri oddastöðu og ræður því hvort borgarstjórinn heitir Dagur B. Eggertsson eða Eyþór Arnalds,“ segir Eiríkur.

 Hann segir að átök í Sjálfstæðisflokknum hafi leitt til uppgjörs þar sem frjálslynda hluta flokksins var hafnað. Með slíkan lista verði erfitt að mynda stjórn með meirihlutaflokkunum og jafnvel Viðreisn. Þetta uppgjör í Sjálfstæðisflokknum hafi heldur ekki haft góð áhrif á fylgi flokksins.

Eiríkur segir erfitt að meta áhrif minni flokka, til dæmis Kvennaframboðsins en fjölgun borgarfulltrúa hefur skapað meira rými fyrir minni framboð. Þó sé vandséð hvernig þau geta orðið fleiri en nú þegar eru fram komin. Það sem vanti helst í þessa kosningabaráttu séu málefni og mest sé rifist um leiðakerfi strætó.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Eirík hér og hlusta á allan þáttinn og sjá brot úr honum á K100.is

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert