Ótímabærar loftárásir

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Við vorum að reyna að fá upplýsingar hvernig þetta hefði borið að, vorum reyna að fá tímalínu. Af hverju við höfum ekki verði upplýst og af hverju það hefur ekki verið haft samband við okkur,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar við mbl.is, eftir fund utanríkismálanefndar Alþingis í kvöld.

Boðað var til fundarins í kvöld vegna loftárása Bandaríkjanna, Breta og Frakka á Sýrland en utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, kom á fundinn og spurðu nefndarmenn hann um afstöðu yfirvalda til árásanna.

„Ísland er auðvitað að lýsa yfir stuðningi við þessa aðgerð,“ sagði Logi. Að hans mati voru loftárásirnar ótímabærar en það hefði í það minnsta mátt bíða eftir upplýsingum frá rannsókn nefndar á því hverjir bæru ábyrgð á árásinni. Logi benti enn fremur á að Antonio Guteress, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefði verið sömu skoðunar:

„Þetta var ótímabært.“

Ráðherrar ekki samstiga

Logi sagði að ríkisstjórn sem setur á forsíðu stjórnarsáttmála síns að hún ætli að efla vald Alþingis ætti að halda þingmönnum upplýstum til að þingmenn fái ekki bara upplýsingar í gegnum viðtöl við ráðherra í fjölmiðlum.

„Ráðherrarnir eru þar að auki mjög tvísaga í þessu. Utanríkisráðherra talar um að íslandi hafi lýsti yfir skilningi en forsætisráðherra segir að þetta hafi verið viðbúið. Það er allt annar hlutur,“ sagði Logi og bætti við að orð ráðherranna pössuðu ekki saman.

„Ég held að það heyri upp á forsætisráðherra að stíga fram og gangast við því að ríkisstjórnin hafi stutt þessa yfirlýsingu NATO.

Aðspurður sagði Logi að hann vildi að samráð yrði haft við nefndina ef svipaðar aðstæður kæmu upp aftur. „Við komum því á framfæri við ráðherra að við ætlumst til þess að það sé haft betra samráð við okkar ef eitthvað þessu líkt gerist aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert