Ekki einsdæmi á leigumarkaðnum

Inga Sæland.
Inga Sæland. mbl.is/​Hari

„Sú elsta sem á að bera út verður níræð og hún á að fara fyrst,“ sagði Inga Sæland þar sem hún fjallaði um mál í þjón­ustu­íbúðum aldraðra í Boðaþingi 22-24. Íbúum sem ekki und­ir­rituðu sér­stak­an viðauka við leigu­samn­ing var sagt upp leig­unni og gert að yf­ir­gefa heim­ili sín í haust.

Inga rakti sögu fólksins sem höfðaði mál gegn leigusalanum eftir „óréttlæti og sjálftöku“. Íbúarnir unnu málið 10. febrúar í fyrra þar sem fram kom að þeir hefðu greitt ólögmætar greiðslur í hússjóð svo árum skipti.

Fljót­lega eft­ir að dóm­ur féll í mál­inu gengu fram­kvæmda­stjóri Nausta­var­ar og þjón­ustu­full­trúi í all­ar íbúðir í Boðaþingi 22-24. Meðferðis höfðu þau viðauka við áður­gerðan leigu­samn­ing íbú­anna. Þau bönkuðu upp á hjá hverj­um og ein­um. All­ir vissu að ef þeir skrifuðu ekki und­ir yrði þeim gert að fara,“ sagði Inga.

„Þetta er öryggi eldri borgara í Boðaþingi. Hvað eigum við að gera til að koma í veg fyrir svona hluti og til að hjálpa þessu fólki?“ sagði Inga og beindi orðum sínum að Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta einstaka mál hefur ekki komið inn á borð ráðherra. Það virðist vera að leigumarkaðurinn á Íslandi sé að verða þannig að allt sem heitir félagsleg nálgun í þeim efnum sé að hverfa,“ sagði Ásmundur.

Hann sagði að það bærust fréttir af því víða um land að stór einkarekin leigufélög gangi ansi hart fram gagnvart fólki sem er á leigumarkaði. „Þetta er verkefni sem þarf að skoða,“ sagði Ásmundur. „Mér finnst þetta mál alveg sláandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert