Lögregluaðgerð vegna Facebook-færslu

Lögregla fór með nemandann úr skólanum og ræddi við hann.
Lögregla fór með nemandann úr skólanum og ræddi við hann. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af nemanda við Fjölbrautaskólann við Ármúla í morgun vegna Facebook-færslu sem hann skrifaði. Mbl.is hefur skjáskot af færslunni undir höndum, en þar stendur: „Eitt like og ég skít upp skolan minn.“

Ólafur H. Sigurjónsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segir skólayfirvöld ekki hafa kallað til lögreglu, en staðfestir að lögregla hafi rætt við nemanda við skólann í morgun. Lögregla hafi því væntanlega fengið ábendingu um skrifin.

Þeir höfðu einhverjar upplýsingar um nemanda. Ég held þetta hafi bara verið strákapör en lögregla brást alveg rétt við. Mér fannst viðbrögð lögreglu mjög markviss og eðlileg.“ Ólafur telur eðlilegt að taka svona hluti alvarlega, líkt og lögregla gerði í þessu tilfelli.

Hann segir lögreglu hafa farið með nemandann og rætt við hann, en hann hafi væntanlega farið heim í kjölfarið. Engar aðgerðir hafa verið af hálfu skólans vegna málsins, en rætt verður við nemandann á morgun.

Aðspurður segir Ólafur aðgerðir lögreglu í morgun ekki hafa verið áberandi, en óeinkennisklæddur lögreglumaður ræddi við hann áður en höfð voru afskipti af nemandanum.

Lögregla vildi ekki tjá sig um málið um málið að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert