Greiddi flugmiðann með eigin korti

Sindri Þór á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir flugið til Svíþjóðar.
Sindri Þór á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir flugið til Svíþjóðar. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk af Sogni í fyrrinótt og flaug til Svíþjóðar í gærmorgun, pantaði flugmiðann sjálfur og greiddi fyrir með eigin korti, rétt áður en hann flúði fangelsið.

Þetta segir Gunnar Schram, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Flugmiðann pantaði Sindri Þór á annars nafni.

Ekki liggur fyrir hvort Sindri Þór hafi haft skilríki þess sem hann þóttist vera á flugmiðanum þegar hann flaug til Svíþjóðar og segir Gunnar að ekki hafi náðst í þann sem Sindri þóttist vera. Þá liggur ekki fyrir hvort tengsl séu á milli mannanna.

Nánast öruggt að hann fékk hjálp

Að sögn Gunnars telur lögregla það nánast öruggt að Sindri Þór hafi notið aðstoðar utan fangelsisins við flóttann. Sindri Þór var í leigubíl þegar hann kom upp á Keflavíkurflugvöll en ekki er vitað hvaðan hann tók bílinn eða hvernig hann komst frá Sogni. Ekki hefur tekist að hafa uppi á leigubílstjóranum, að sögn Gunnars. Leigubíllinn er silfurlitaður Skoda-skutbíll.

Ekki er vitað hvar Sindri Þór er niður kominn, en að sögn Gunnars er það síðasta sem til hans hefur spurst að hann hafi lent í Svíþjóð. Tveir menn voru yfirheyrðir í dag vegna málsins með réttarstöðu sakbornings, en þeim sleppt að loknum yfrirheyrslum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert