Ríkisútvarpið fari af fjárlögum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur í drögum að ályktunum landsþings Miðflokksins sem fram fer um helgina að flokkurinn leggi áherslu á skynsemisstefnuna sem byggi á því að greina úrlausnarefni samfélagsins og leita að skynsamlegstu lausnunum með því að hlusta á öll sjónarmið, vera opinn fyrir tillögum frá öllum hliðum og taka ákvörðun byggða á rökum.

Meðal þeirra málefna sem áhersla er lögð á er að sköpuð verði heildaráætlun sem tekur á öllum þáttum samfélagsins byggða á framtíðarsýn Miðflokksins fyrir landið. Meðal annars með tilliti til heilbrigðismála, menntamála, samgöngumála, fjarskiptamálum og ferðaþjónustu. Sérstaklega verði stutt við svonefnd kaldari svæði.

EES-samningnum verði hugsanlega sagt upp

Fram kemur að Miðflokkurinn vilji að löggæsla verði stórefld í landinu og þar með talið netöryggisstarf löggæslu. Landamæragæsla verði að sama skapi efld og öryggiseftirlit og tollgæsla aukin við komustaði til landsins. Ennfremur verði ávinningurinn af aðild Íslands að Schengen-samstarfinu verði metinn með hagsmuni Íslands í öndvegi.

Sömuleiðis er kallað eftir því að fram fari óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og óska eftir breytingum á EES-samningnum eða segja sig frá honum. Inngöngu landsins í Evrópusambandið er alfarið hafnað. Áhersla er lögð á mikilvægi aðildarinnar að NATO og varnarsamningsins við Bandaríkin.

Lögð er áhersla á að hraða til muna afgreiðslu hælisumsókna og leita leiða til að koma í veg fyrir tilhæfulausar umsóknir. Megináherslu verði lögð á hjálparstarf og fjárhagsaðstoð í löndum sem liggja nálægt stríðshrjáðum svæðum enda sé þörfin mest á þeim svæðum samkvæmt áliti flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Húsnæðisliður verði tekinn út úr neysluvísitölu

Dregið verði úr skerðingum hjá eldri borgurum og þær að lokum afnumdar. Þannig munu atvinnutekjur ekki skerða lífeyrisgreiðslur. Komið verði á sveigjanlegum starfslokum og þeim sem lokið hafa starfsævinni séu tryggðar tekjur sem standa undir sæmandi lífskjörum. Fjölga þurfi þjónustuíbúðum og hjúkrunarheimilum um land allt.

Gert er ráð fyrir því að Ríkisútvarpinu verði breytt á þann hátt að RÚV ohf. verði tekið af fjárlögum ríkisins og rekstur þess fjármagnaður með áskriftarsölu og á auglýsingamarkaði. Óheimilt verði  að veita fé af fjárlögum ríkisins til reksturs þess. Rás 1 verði verði rekin sem öryggis og menningarstöð og tryggt að útsendingar nái til allra landsmanna.

Þá er lögð áhersla á endurskipulagningu fjármálakerfisins, þak verði sett á vexti af nýjum verðtryggðum lánum þar til verðtrygging verði aflögð á neytendalánum. Húsnæðisliður verði tekinn út úr neysluvísitölu. Regluverk fyrir atvinnulífið verði einfaldað og tryggingagjald lækkað. Þá verði erfðafjárskattur afnuminn enda sé um að ræða tvísköttun.

Hér má lesa drögin að ályktunum Miðflokksins í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert