Sindri Þór handtekinn í Amsterdam

Strokufanginn Sindri Þór Stefánsson var handtekinn í miðborg Amsterdam í Hollandi í dag. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, við mbl.is.

Ólafur Helgi kveðst ekki geta staðfest neitt varðandi næstu skref í málinu.

„Það er beðið frekari fregna,“ segir hann en Vísir greindi fyrst frá handtökunni. 

Rob van der Veen, talsmaður lögreglunnar í Amsterdam, staðfestir einnig við mbl.is að Sindri Þór hafi verið handtekinn í dag í miðborginni. 

Hann segir lögregluna ekki vilja veita frekari upplýsingar um kringumstæður handtökunnar. Mál Sindra er núna hjá héraðssaksóknara í Amsterdam og er ekki ljóst með framvindu mála annað en að haft verði samband við íslensk yfirvöld um framhaldið.

Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra Þórs, sagðist í samtali við mbl.is ekkert hafa heyrt af handtöku hans nema það sem hann las í fjölmiðlum í kvöld.

Sindri strauk úr fangelsinu á Sogni aðfaranótt þriðjudags.

Hann komst með flugi til Svíþjóðar morg­un­inn eft­ir, áður en nokk­ur hafði gert sér grein fyr­ir því að hann var horf­inn úr her­bergi sínu. Talið er að hann hafi kom­ist út um glugga.

Alþjóðleg hand­töku­skip­un var gef­in út á hend­ur Sindra og vega­bréf hans var gert ógilt.

Grunur lék á að Sindri Þór hefði farið til Spánar en ekkert fékkst staðfest þess efnis. 

Kristín Benediktsdóttir, dósent í réttarfari við Háskóla Íslands, greindi frá því kvöldfréttum RÚV á föstudag að Sindri Þór hefði átt að vera frjáls ferða sinna eft­ir að gæslu­v­arðhalds­úrsk­urður yfir hon­um rann út vegna þess að hann var ekki hand­tek­inn að nýju.

Hún sagði það skýrt í stjórn­ar­skrá að ekki megi svipta neinn frelsi nema með úr­sk­urði dóm­ara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert