Hrafnhildur ósátt við heilbrigðisráðherra

Skorað er á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að endurskoða ákvörðun um …
Skorað er á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að endurskoða ákvörðun um að slíta samstarfi við Karitas. mbl.is/Golli

Hrafnhildur Agnarsdóttir segist ósátt við ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að slíta samstarfi við hjúkrunar- og ráðgjafaþjónustuna Karitas. Í opnu bréfi til ráðherrans lýsir Hrafnhildur þeirri þjónustu sem Karitas hefur veitt móður hennar eftir að hún greindist með 4. stigs krabbamein í eggjastokkum í fyrra, og biður hún heilbrigðisráðherra um að endurskoða ákvörðunina.

Hrafnhildur segist í samtali við mbl.is vera „mjög ósátt“ við ákvörðun heilbrigðisráðherra um að slíta samstarfssamningi við Karitas. Hún gagnrýnir það að óvissa hefur skapast meðal þeirra sem þurfa á þjónustu Karitas að halda. „Ég vil vita í raun og veru hvað hún ætli að gera til að koma til móts við þessar aðstæður sem fólk er að lenda í og hvort það í raun og veru komi eitthvað í staðinn, ef ekki hvernig hún ætli að réttlæta það.“

Karitas „ómetanleg“

Í bréfinu sem Hrafnhildur, birti á samskiptamiðlinum Twitter, segir hún frá því að móðir hennar hafi greinst með 4. stigs eggjastokkakrabbamein á síðasta ári. Erfitt var fyrir fjölskylduna að vera við hlið móðurinnar þar sem Hrafnhildur hafi verið í fullu starfi, háskólanámi og íþróttum, en faðir hennar var einnig í fullu starfi. Þar af leiðandi var erfitt að fylgja eftir málum við lækna um lyfjagjöf, næringu og ástand móðurinnar.

„Við vissum ekkert af Karitas framan af. Hún [móðir Hrafnhildar] hafði verið send upp á Bráðamóttöku með næringarskort og vökvaskort. Svo eftir það kemur Karitas inn í málið og þá bara gjörbreyttist allt,“ segir Hrafnhildur við mbl.is og bætir við að hún sé mjög þakklát yfir þjónustu Karitas sem hún segir „ómetanlega“.

Hrafnhildur segir „að líklega hefði hún [móðirin] ekki þurft að fara á Bráðamóttökuna og verða lögð inn í tíu nætur sem er fok dýrt ef Karitas hefði komið fyrr að málinu. Ég sé ekki fjárhagslegan ávinning í því að leggja þetta niður.“

Hún segist vilja gefa Svandísi tækifæri til þess að svara fyrir þessa ákvörðun. „Mér skilst að hún sé að reyna að færa mikið af þessum einkareknu fyrirtækjum undir ríkið en mér finnst þetta stórmál þar sem þetta veldur miklu óöryggi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert