Gerði athugasemd við handtöku Sindra

Fyrir dómi í gær gerði lögmaður Sindra Þórs verulegar athugasemdir …
Fyrir dómi í gær gerði lögmaður Sindra Þórs verulegar athugasemdir við ábendingu sem leiddi til handtöku hans. Ljósmynd/Héraðssaksóknari Amsterdam

Verjandi Sindra Þórs Stefánssonar í Hollandi, Michiel M. Kuyp, segir í samtali við mbl.is að skjólstæðingur sinn hafi lýst yfir að hann sé reiðubúinn til þess að fara sjálfviljugur til Íslands og mun því vera framseldur til íslenskra yfirvalda innan 20 daga. Þetta staðfestir Franklin Wattimena, fjölmiðlafulltrúi héraðssaksóknara í Amsterdam.

Kuyp segist hafa haft samband við embætti héraðssaksóknara í Amsterdam og upplýst þá um ósk Sindra Þórs um að fara sjálfviljugur til Íslands. Haft verður samband við íslensk yfirvöld til þess að ganga frá flutningi hans til Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu var framsalsbeiðni vegna Sindra send yfirvöldum í Hollandi í gær. Er það nú í höndum hollenskra yfirvalda að afgreiða beiðnina.

Vafasöm handtaka

„Það sem gerðist í gær var að Ísland hafði veitt mjög litlar upplýsingar um ástæður fyrir handtökunni. Ég gerði verulegar athugasemdir við þetta. Undir venjulegum kringumstæðum tekur dómari strax ákvörðun um gæsluvarðhald. Í þessu máli, sem er mjög óvenjulegt, skipaði dómarinn saksónara að veita frekari upplýsingar innan sólarhrings. Þetta var ástæða þess að málinu var frestað í gær. Í morgun mætti síðan saksóknari með handtökubeiðni Íslands, en áður en dómarinn tók ákvörðun sagðist herra Stefánsson vilja fara heim sjálfviljugur. Hann er sannfærður um að málaferlið á Íslandi muni ganga sér í hag“ segir Kuyp.

Michiel M. Kuyp, lögmaður Sindra Þórs í Hollandi.
Michiel M. Kuyp, lögmaður Sindra Þórs í Hollandi. Ljósmynd/Van Bavel Advocaten

Hann segir einnig að handtakan hafi verið sérkennileg. „Það sem gerðist er að lögreglan í Amsterdam handtekur hann eftir frásögn vitnis um að hann hafi séð mann sem er eftirlýstur á Íslandi. Þetta er mjög sérkennilegt, þar sem það voru mun meiri upplýsingar í málaskránni en einhver vegfarandi gæti vitað. Okkur grunar þess vegna að lögreglan á Íslandi hafi hugsanlega elt hann uppi í Amsterdam. Það er ólöglegt athæfi. Ég gerði þess vegna verulegar athugasemdir við handtökuna í dómssal í gær.“

Kyup bætir við að sé það rétt að íslensk lögregla hafi elt hann uppi í Amsterdam hafi það ekki áhrif á gang mála í Hollandi, en getur haft áhrif á málaferli fyrir íslenskum dómsstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert