Leysa átti Sindra Þór úr haldi án tafar

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins.
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

Viðkomandi maður mun ekki hafa verið álitinn hættulegur og því erfitt að sjá að þessi framgangur í málinu þjóni almannahagsmunum,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann ræddi um flótta Sindra Þórs Stefánssonar frá Sogni á dögunum og í kjölfarið úr landi.

„Sannleikurinn í því máli er að gæsluvarðhald það sem sá maður sat í var útrunnið þegar hann strauk úr haldi og áttu því yfirvöld að leysa manninn úr haldi án nokkurra tafa. Um það eru skýr fyrirmæli í lögum og stjórnarskrá að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum,“ sagði Karl Gauti enn fremur. Með því væri hann þó ekki að mæla því bót almennt að fólk léti sig hverfa úr haldi lögreglu þótt það teldi sig vera þar að ófyrirsynju.

„Fyrir liggur að maðurinn hefur ekki verið sakaður um ofbeldisbrot. Einnig liggur fyrir að mál á hendur honum er enn til rannsóknar og ákæra hefur ekki verið gefin út. Auglýst var eftir manninum í fjölmiðlum með mynd og í kjölfarið var hann eftirlýstur hjá öllum helstu alþjóðalöggæslustofnunum um allan heim. Slíkar aðgerðir eru auðvitað mjög íþyngjandi og í ljósi allra aðstæðna í málinu sem ég hef hér stuttlega reifað í hæsta máta óeðlileg framganga og meðalhófs klárlega ekki gætt,“ sagði þingmaðurinn enn fremur sem sjálfur er fyrrverandi sýslumaður.

„Ég tel í ljósi hæstaréttardómsins sem fyrr var nefndur að skoða eigi vinnubrögð í slíkum málum, framsetningu kröfu um gæsluvarðhald og tímasetningu þess, tímanlega áður en úrskurður rennur út, form eftirlýsingar strokufanga eða grunaðra og almennt eftirfylgni mála af þessu tagi og síðast en ekki síst að læra af stórkostlegum ávítum af hálfu æðsta dómstóls landsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert