Fjórir milljarðar í brýnar vegaframkvæmdir

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í morgun tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að veita 4 milljarða króna framlag til brýnna vegaframkvæmda árið 2018 úr almennum varasjóði sem fjármála- og efnahagsráðherra fer með.

Fram kemur í fréttatilkynningu að sú staða sem uppi sé varðandi slæmt ástand vegakerfisins og viðbótarviðhaldsþörf hafi áður verið rædd í ráðherranefnd um ríkisfjármál. „Afar brýnt er að verja þau verðmæti sem liggja í vegakerfinu en vandinn mun vaxa ef ekki verður brugðist við í tæka tíð. Lélegt viðhald dregur einnig mjög úr umferðaröryggi. Þörfin er um allt land og verður nú mætt að nokkru leyti með viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Vegagerðin hefur metið brýnustu verkefnin sem hægt er að ráðast í með það að markmiði að verja fjárfestingu vegakerfisins og öryggi vegfarenda.“

Ennfremur segir að Vegagerðin vinni að því að leggja mat á og forgangsraða nauðsynlegum viðhaldsframkvæmdum og ráðstafa því fjármagni sem til reiðu sé. „Samhliða þeim auknu fjármunum sem nú verður veitt til vegaframkvæmda er gert ráð fyrir breyttri forgangsröðun verkefna á yfirstandandi ári og til framtíðar litið, í samráði við fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, þannig að mynda megi aukið svigrúm fyrir brýnt viðhald vega.“

Til viðbótar séu á fjárlögum ætlaðir 8 milljarðar króna til viðhalds vegakerfisins í ár. Þar af sé áætlað að verja 3,7 milljörðum króna til að endurnýja slitlög og 1,6 milljarði króna í styrkingaframkvæmdir. Haft er eftir Sigurði Inga að þetta muni gera mögulegt að ljúka strax á þessu ári mikilvægum vegabótum sem annars hefðu þurft að bíða fram á næsta ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert