Vill fara varlega í trúnaðargögnin

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarnefnd Alþingis.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarnefnd Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef farið mjög varlega í það að afla mér of mikilla trúnaðarupplýsinga þar sem þetta er barnaverndarmál sem er hvað mikilvægast að trúnaður ríkir um,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi velferðarnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.

Vilhjálmur hefur ekki skoðað gögnin í málinu sem nefndinni bárust á þriðjudag. „Ég hef ekki skoðað þessi ýtrustu trúnaðargögn. Ég vil fá úr því skorið hvað mikið af þeim á heima í þingnefnd áður en ég fæ þau í mínar hendur.“ Hann setur spurningamerki við það hvort þingmenn eigi að rannsaka niðurstöðu í einstaka málum barnaverndar. „Ég tel að það sé mjög varhugavert að rannsaka svona viðkvæm mál fyrir opnum tjöldum.“

Opinn fundur verður í velferðarnefnd klukkan 11 á morgun þar sem verður fjallað um kvart­an­ir barna­vernd­ar­nefnda til fé­lags­málaráðuneyt­is­ins und­an Braga og Barna­vernd­ar­stofu í nóv­em­ber í fyrra og aðkomu Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, fé­lags- og jafn­rétt­is­málaráðherra, að þeim mál­um.

Vilhjálmur segir að þau gögn sem um ræðir, og eru ekki trúnaðargögn, geti upplýst málið. „En það sem mér finnst vera hlutverk nefndarinnar og finnst réttast að gera er að komast að því hvað er það sem orsakar þessa togstreitu á milli barnaverndarnefndanna og Barnaverndarstofu. Það er það sem við þurfum að uppræta og tryggja að kerfið virki fyrir börnin en ekki að börnin séu að líða fyrir deilur á milli barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu.“

Vilhjálmur segist vilja fá upplýsingar sem upplýsa um deilurnar, séu þær til staðar. „Ráðherrann hefur gefið í skyn að deilur séu á milli Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndanna og því fyrirkomulagi. Þess vegna er hann búinn að setja af stað vinnu við skipulagsbreytingar og annað til þess að auka traust þarna á milli. Það er það mikilvægasta svo að barnaverndarmálin gangi eðlilega fyrir sig í trausti samstarfsaðila sem þurfa að geta unnið saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert