Segir orð ráðherra „með ólíkindum“

Þorsteinn Víglundsson gagnrýnir Ásmund Einar Daðason og segir hann kasta …
Þorsteinn Víglundsson gagnrýnir Ásmund Einar Daðason og segir hann kasta rýrð á vinnu starfsmanna ráðuneytisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi ráðherra félagsmála, segir það „með ólíkindum“ að Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra kasti rýrð á vinnu embættismanna í velferðarráðuneytinu með því að segja rannsókn ráðuneytisins ekki hafna yfir gagnrýni.

„Mér þykir það mjög ámælisvert að ráðherra sé í raun og veru að skella skuldinni á rannsókn ráðuneytisins sjálfs,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. Hann segir að gagnrýnin á ráðherra snúist um það að niðurstöður rannsóknarinnar hafi ekki verið birtar, en ekki að rannsókninni sjálfri. Það að birta ekki niðurstöðurnar hljóti að hafa verið ákvörðun ráðherra.

„Menn hafa ekki fengið neitt tækifæri til að leggja mat á þessa rannsókn út af fyrir sig,“ segir Þorsteinn, sem var ráðherra málaflokksins er formlegar kvartanir bárust frá barnaverndarnefndum Reykjavíkur og Hafnarfjarðar vegna aðkomu Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, að einstaka barnaverndarmálum.

„Áður en það er farið að efna til sjálfstæðrar, óháðrar rannsóknar þá væri nú ágætt bara að byrja á því að birta niðurstöður þeirrar rannsóknar sem ráðuneytið sjálft vann og þá geta menn tekið afstöðu til hennar á grundvelli þeirra upplýsinga sem þar liggja, en ekki að það sé verið að drepa málinu á dreif með þessum hætti,“ segir Þorsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert