Rannsóknin ekki hafin yfir gagnrýni

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mætti á fund hjá velferðarnefnd Alþingis …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mætti á fund hjá velferðarnefnd Alþingis fyrir hádegi. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Niðurstaðan var sú að Bragi Guðbrandsson hefði ekki brotið af sér í starfi. Það var niðurstaða ráðuneytisins og sú niðurstaða lá til grundvallar þegar að ákveðið var að hann myndi bjóða sig fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Verði breytingar á þessu, þá að sjálfsögðu verða breytingar á framboðinu,“ sagði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í samtali við mbl.is að loknum opnum fundi velferðarnefndar Alþingis, þar sem hann sat fyrir svörum.

Fram kom á fundinum að Ásmundur Einar hefði farið þess á leit við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að ríkisstjórnin skipi óháðan aðila til að gera úttekt á meintum afskiptum Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, af störfum barnaverndarnefnda og rannsókn ráðuneytisins á þeim málum.

Reiknað er með að þessi óháða úttekt, sem ekki hefur verið ákveðið hver framkvæmi, fari fram áður en atkvæðagreiðsla til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fer fram í lok júní.

Einnig kom fram í máli ráðherra að unnið sé að heildarendurskoðun barnaverndarmála hér á landi og að ráðgjafafyrirtækið Expectus hafi verið ráðið til þeirra starfa. Þá segir ráðherra að bæta þurfi eftirlitshlutverk ráðuneytisins með barnaverndarmálum og að sérstök eftirlitsstofnun í þeim efnum taki til starfa í vikunni.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, boðaði til fundarins til að ræða mál Braga og þá sér í lagi upplýsingagjöf ráðherra til nefndarmanna um rannsókn ráðuneytisins. Hún og fleiri nefndarmenn hafa sagt að þeir telji að Ásmundur Einar hafi ekki veitt velferðarnefnd fullnægjandi upplýsingar um rannsókn ráðuneytisins á fundi 28. febrúar síðastliðinn, þar sem ráðherra kynnti niðurstöðu ráðuneytisins og í raun haldið gögnum frá nefndinni.

Telur sig hafa komið hreint fram

Ásmundur Einar lagði áherslu á það í svörum sínum á fundinum í dag að hann hefði boðið fram allar upplýsingar og öll gögn sem nefndarmenn vildu fá um þetta mál.

„Ég held að ég hafi komið hreint og satt fram við nefndina í öllu sem ég hef komið þarna að,“ segir Ásmundur Einar og vísar til fundarins 28. febrúar. „Í framhaldinu heyri ég ekkert fyrr en það kemur ítarleg gagnabeiðni mánuði seinna. Ég segi bara eins og er að ég hef leitast við að bjóða nefndinni allt það sem að hún vill í þessu máli og ég mun gera það áfram í öðrum málum og þessu máli, hér eftir sem hingað til,“ segir Ásmundur Einar.

„Það hefur verið talsvert mikil gagnrýni á þetta mál í heild sinni og þess vegna held ég að það sé mjög jákvætt að það fari fram óháð athugun á málinu sjálfu og það hefur reyndar verið óskað eftir því af hálfu Braga Guðbrandssonar einnig. Þannig að ég segi bara eins og er, það er mjög jákvætt. Ráðuneytið komst að þessari niðurstöðu, það er ekkert hafið yfir gagnrýni.“

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis.
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nefndarmenn í velferðarnefnd báðu um að fá ítarleg gögn um rannsókn ráðuneytisins þann 21. mars síðastliðinn. Þau gögn fékk nefndin afhent í lok síðustu viku, um 1.000 blaðsíður í heildina, sem trúnaður ríkir um.

Ekki hafa allir þingmennirnir í nefndinni kosið að kynna sér þessi gögn, en Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði í umræðuþættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag að hennar mat væri að svör sem fengust frá ráðuneytinu styrktu frásögn Stundarinnar frá því á föstudag, en þar er fjallað um afskipti Braga af barnaverndarmáli í Hafnarfirði.

Enginn vafi megi vera um fulltrúann

Halldóra Mogensen segir að Bragi Guðbrandsson eigi að hennar mati ekki að verða fulltrúi Íslands í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.

„Miðað við allar þær upplýsingar sem eru þegar komnar fram, þá finnst mér það í rauninni nóg til þess að draga framboð hans til baka. Út af því, að þegar kemur að því að veita aðila þessa stöðu, þessa stöðuhækkun í raun og veru, í þetta starf til Sameinuðu þjóðanna, þá á ekkert að liggja neinn vafi um þann einstakling og hæfi hans og getu til að sinna starfinu. Þetta á ekki að vera svona umdeildur aðili,“ segir Halldóra

Hún segir jafnframt að hana reki ekki minni til þess eða sjái það á sínum fundarpunktum að félagsmálaráðherra hafi lýst því sérstaklega yfir við nefndarmenn 28. febrúar að hann væri boðinn og búinn til að veita nefndinni öll gögn sem snerta þessi mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert