Grunnforsendan einfaldlega röng

Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, setur spurningarmerki við að velferðarnefnd …
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, setur spurningarmerki við að velferðarnefnd hafi ekki séð ástæðu til að ræða við hann fyrr vegna málsins. Ljósmynd/Aðsend

Sú grunnforsenda í frétt Stundarinnar að Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hafi haft afskipti af máli með það að markmiði að faðir barnsins fái aðgang að því er beinlínis röng. Þetta segir Bragi í samtali við mbl.is. „Þetta er ekkert flóknara. Það er verið að ætla mér gjörð sem ég er saklaus af,“ segir hann.  Með því sé hann þó ekki að gera því skóna að það hefði verið glæpur, ef þetta hefði verið ástæðan.

„Þessi grunnforsenda er hins vegar einfaldlega röng og það ættu menn að hafa séð í gögnunum, ef að þeir hefðu lesið þau. Vandamálið er, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að nefndarmenn hafa ekki lesið gögnin.“

Stund­in fjallaði um kvart­an­ir barna­vernd­ar­nefnd­anna á föstu­dag þar sem meðal ann­ars kem­ur fram að Bragi hefði haft af­skipti á barna­vernd­ar­máli í Hafn­ar­f­irði sem sner­ist um um­gengni prests­son­ar við dæt­ur sín­ar, en barn­s­móðirin sak­ar manninn um að hafa beitt börnin kyn­ferðisof­beldi. Hanna Katrín Friðriks­son, þingmaður Viðreisn­ar og áheyrn­ar­full­trúi í vel­ferðar­nefnd Aþing­is, sem séð hef­ur gögn er tengj­ast mál­inu, seg­ir þau að henn­ar mati styrkja frá­sögn Stund­ar­inn­ar.

Velferðarnefnd Alþingis mun funda með Braga  í fyrramálið vegna þessara mála.  Sá fundur verður opinn og segir Bragi þá ákvörðun valda sér vonbrigðum þar sem að fyrir vikið muni hann ekki geta talað jafn opinskátt um málið og ella. „Mér skilst nú raunar, sem ég vissi ekki með vissu fyrir, að öll gögn séu nú komin í hendur nefndarinnar,“ segir hann. „Ég get hins vegar að sjálfsögðu ekki dregið fram einhver tiltekin gögn og lagt til grundvallar í minni frásögn, þannig að þetta hefur þau áhrif.“

Vonbrigði að hafa ekki verið kallaður til fyrr

Spurður hvort það hafi ekki heftandi áhrif að geta ekki svarað að fullu, kveðst Bragi einfaldlega þurfa að sætta sig við þær leikreglur sem sér séu settar. „Það hafa að vísu verið mér mjög mikil vonbrigði að hafa ekki haft tækifæri til þess á vettvangi velferðarnefndar þingsins að fjalla um þessi mál.“ Enda sé málið búin að vera til meðferðar hjá nefndarinni í töluverðan tíma.

„Hún hefur boðað fjölmarga aðila á sinn fund, m.a. fulltrúa barnaverndarnefndanna sem á sínum tíma báru fram kvartanirnar vegna minna starfa, en einhverra hluta vegna hafa menn aldrei séð ástæðu til að ræða við höfuðpaurinn og það finnst mér ekki vera sanngjörn málsmeðferð,“ segir Bragi. „En við skulum líta fram á við og ég ætla að nýta þetta tækifæri  eins vel og ég get.“

Hann staðfestir að hann hafi átt gott samtal við umboðsmann Alþingis vegna málsins, en kveðst ekki geta greint frá samræðum þeirra að svo stöddu. „Ég get bara staðfest að ég hef átt mjög gott samtal við umboðsmann Alþingis. Það eru flækjur í aðkomu hans, en þetta mun skýrast mjög fljótt,“ segir Bragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert