Þórunn sagði viðhorf SA forneskjuleg

Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir mbl.is/Hari

Stöðugleiki var meginefni ræðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, á fjöldafundinum á Ingólfstorgi í dag. Þá sagði hún jöfnun skattbyrðar, húsnæðismál, fjölgun barnabótaþega og endurreisn opinbers heilbrigðiskerfis vera grundvöllurinn að þeim stöðugleika sem sjá má annars staðar.

Þórunn fullyrti að næsta lota kjarasamninga yrði ekki leyst með gengisaðlögun fyrir útflutningsgreinar. Sagði hún slíkar aðgerðir vera á kostnað launafólks og heimilanna í landinu, einnig að slíkt myndi stuðla að óstöðugleika, óánægju og ólgu. „Vonandi verður ekki gripið til gamaldags hrossalækninga“ bætti hún við.

Hún skaut fast að ríki og sveitarfélögum og sagði að á næsta ári væri hægt að velja að semja um „raunverulegar breytingar á vinnumarkaði eða að hjakka í sama farinu áfram. Ef krafa viðsemjenda okkar verður um stöðugleika á vinnumarkaði þá hljóta þeir að bjóða alvöru aðgerðir til að tryggja félagslegan stöðugleika hér á landi. Nýtt og samræmt lífeyriskerfi þýðir einnig að þá gefst stjórnvöldum tækifæri til að efna fyrirheit um jöfnun launa milli markaða.“

Menntun kvennastétta ekki metin til launa

Í ræðu sinni sagði Þórunn að það kunni að þurfa sérstakt þjóðarátak með samvinnu og samtöðu þvert á heildarsamtök launafólks til þess að lyft kvennastéttum. „Elsta fagstétt kvenna á Íslandi mætir stífni og skilningsleysi af hálfu samninganefndar ríkisins. Ég ætla að fullyrða hér að þjónusta við sængurkonur og nýfædd börn sé undirstaða velferðar á Íslandi. Við erum að tala um fjöregg þjóðar. En ljósmæður líkt og margar háskólamenntaðar kvennastéttir standa frammi fyrir þeim kalda veruleika að menntun þeirra er kerfisbundið ekki metin til launa“ sagði hún.

Formaðurinn ræddi einnig styttingu vinnuvikunnar og sagði hún tilraunaverkefni BSR, Reykjavíkurborgar og ríkisins lofa góðu. Þá sagði hún viðhorf Samtaka atvinnulífsins til málsins vera „forneskjuleg“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert