Gert að taka upp „skrítna“ löggjöf

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Farið hefur verið rangt með ýmislegt varðandi tengsl Íslands við Evrópusambandið í umræðunni í Bretlandi um útgöngu Breta úr sambandinu. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Þannig bendir Guðlaugur Þór á að þrátt fyrir aðild sína að EES-samningnum geti Ísland samið um fríverslun við ríki um allan heim sem fari yfirleitt í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). Fyrir vikið veitti aðildin meira svigrúm en haldið hafi verið fram í umræðunni í Bretlandi. Ísland hafi til dæmis verið fyrst Evrópuríkja til að semja um fríverslun við Kína.

Guðlaugur segir til að mynda rangt að Ísland taki aðeins við löggjöf frá Evrópusambandinu og hafi tekið upp meirihluta regluverks sambandsins. „Það er ekki rétt að við tökum upp 80-90% af regluverkinu, við höfum tekið upp 13,4% frá 1994.“ EES-samningurinn hafi reynst Íslandi vel. Hann vilji þó ekki hafa áhrif á umræðuna í Bretlandi heldur aðeins að benda á ákveðnar rangfærslur.

Hins vegar er haft eftir Guðlaugi í fréttinni að EES-samningurinn hafi ekki átt sér nógu marga málsvara sem hafi haft áhrif á vinsældir hans. Ennfremur segir að Guðlaugur viðurkenni sömuleiðis að Ísland sé í vaxandi mæli að taka upp ýmsa „skrítna“ löggjöf frá Evrópusambandinu sem henti ekki íslenskum hagsmunum.

Þá segir að umræða fari fram á Íslandi um kosti og galla aðildar landsins að EES-samningnum. Ráðherrar hafi meðal annars kvartað yfir því að aðildin veitti ekki nægjanlegt svigrúm til þess að taka mið af íslenskum aðstæðum. Til dæmis í matvæla- og orkumálum.

Þar er vísað í nýlegt viðtal blaðsins við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra þar sem hann sagði meðal annars að Evrópusambandið liti á sjálfstæði Íslands sem vesen. Áhersla sambandsins á frekari samruna gerði Íslendingum sífellt erfiðara með að verja brýna þjóðarhagsmuni á vettvangi EES-samstarfsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert