28 slys á kílómetra

Enn eitt alvarlegt umferðarslys varð í síðustu viku á Reykjanesbrautinni …
Enn eitt alvarlegt umferðarslys varð í síðustu viku á Reykjanesbrautinni innan Hafnarfjarðar á vegkaflanum frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Ljósmynd/Hersir Gíslason

„Skorað er á samgönguráðherra og þingmenn Suðvesturkjördæmis að sjá til þess að framkvæmdin verði boðin nú þegar út þannig að framkvæmdir hefjist í ár og ljúki á næsta ári“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnafjarðar, í bréfi sem hann sendi á þingmenn Suðvesturkjördæmis og samgönguráðherra vegna alvarlegs umferðarslyss á Reykjanesbraut á dögunum.

Haraldur segist í bréfi sínu ósáttur við að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafi ekki enn verið lokið. „Einn umferðamesti vegkafli landsins þrátt fyrir það er um að ræða einn veg með akstursstefnu í sitt hvora átt.  Samgöngustofa hefur tekið saman í ársskýrslu slysaskráningar fyrir árið 2015 og samkvæmt henni voru slys á vegkaflanum frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi (með gatnamótum) rúmlega 100 á því ári. Þessi vegkafli er 3,5 km sem gefur gildið 28 slys á km,“ segir í bréfinu.

Bæjarstjórinn vísar til fjárlaga þar sem gert er ráð fyrir 600 milljónum til framkvæmda við Reykjanesbraut, en fara á í bráðabirgðaframkvæmd við Reykjanesbrautina við gatnamótin við Kaplakrika. Haraldur segist búa yfir upplýsingum um að þessi framkvæmd muni aðeins kosta 100 milljónir og segir að á grundvelli fjárlaga ættu a vera 500 milljónir eftirstandandi ætlaðar Reykjanesbraut.

Útboðsgögn vegna tvöföldunar á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krísuvikurveg eru nánast tilbúin að sögn Haraldar, og segir hann ekkert vera því til fyrirstöðu að fara í útboð og að framkvæmdir geti hafist á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert