Miklar áskoranir blasa við

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Miklar áskoranir blasa við í umhverfismálum og má nefna að í kafla um loftslagsmál kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi er langt umfram heimildir Íslands. Þetta er meðal þess sem kom fram á ársfundi Umhverfisstofnunar í morgun.

Töluvert var fjallað um magn úrgangs sem fellur til hér á landi í ársskýrslu Umhverfisstofnunar fyrir árið 2017. 

„Árið 2016 urðu þau tíðindi að magn úrgangs sem féll til á einu ári á Íslandi varð yfir milljón tonn. Árið áður hafði magnið verið um 870 þúsund tonn og var aukningin á milli ára rétt tæp 200 þúsund tonn, eða 23%. Þetta er mun meiri aukning en varð á milli áranna 2014 og 2015 en þá reyndist aukningin tæp 7%,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Ljóst sé að miklar áskoranir blasi við í umhverfismálum en í kafla um loftslagsmál kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi er langt umfram heimildir Íslands. 

„Þótt Ísland sé skuldbundið til að draga úr losun (miðað við losunina árið 1990) á öðru tímabili Kyoto-bókunarinnar hefur losunin verið nokkur stöðug frá 2011, eða um 5% yfir losun  ársins 1990. Losun Íslands á fyrsta helmingi annars tímabils Kyoto-bókunarinnar (bindingareiningar taldar með) samsvarar u.þ.b. 75% af losunarheimildum sem Ísland fékk úthlutað fyrir tímabilið. Ef ekki dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi mun losun Íslands á tímabilinu verða langt umfram úthlutaðar heimildir og mun Ísland þurfa að uppfylla skuldbindingar sínar með því að kaupa heimildir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert