Margir flokkar sækja á sömu mið

Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði. segir fjölda framboða mun …
Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði. segir fjölda framboða mun líklega hafa áhrif á kosningahegðun. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Einstaklingarnir í framboði gætu haft meiri áhrif á niðurstöðu borgarstjórnarkosninga en áður vegna þeirrar fjölda framboða sem verða á kjörseðli í Reykjavík, segir Eva Heiða Önnudóttir, dósent við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Eva segir fjölgun framboða í Reykjavík framhald af þeirri þróun sem almennt hefur verið til staðar síðustu ár, þar sem eldri flokkar hafa verið að missa fylgi og fleiri sjái því tækifæri að ná kjöri. „Þessi fjölgun flokka á þingi um þrjá nýja flokka, þetta hlýtur að smita útfrá sér. Aðrir sjá að þetta er möguleiki á meðan fyrir 10-15 árum þá var bara mjög erfitt að komast að sem nýr flokkur,“ segir hún.

Hún segir líklegra að fólk sé reiðubúið til þess að leggja á sig þá vinnu sem framboði fylgir ef það telur möguleika á að ná kjöri.

16 framboð höfðu skilað inn framboðslistum í Reykjavík þegar framboðsfrestur rann út í dag klukkan 12.

Kjósendur hafa meira val

Það gæti farið svo að stærri flokkar græði á fjölda framboða. Að sögn Evu veltur það á því hversu mörg atkvæði falli niður dauð, en segir jafnframt að ekki er vitað hvernig það muni skiptast milli flokkana sem ná kjöri.

Samkvæmt Evu fara aðrir þættir en stefna flokkana að skipta kjósendum máli þegar fleiri flokkar eru að sækja á sömu mið. „Í fyrsta lagi á flokkurinn séns, kjósandinn hugsar strategískt. Kjósandinn vill að það sem hann kýs komist að, en svo getur farið líka að skipta máli persónur, hverjir eru í forsvari,“ segir hún og útskýrir að þegar flokkar eru nálægt hvort öðrum þá fer að skipta kjósendur meira máli hverjum hann treystir.

Alveg frá vinstrivæng yfir á hægri eru mörg framboð að höfða til sömu kjósenda og er því líklegt að kjósendur munu líta til fyrrnefndra þátta þegar gengið er í kjörklefann að sögn Evu.

16 er nýtt met í fjölda framboða í Reykjavík og hafa kjósendur ekki haft fleiri valkosti síðan 1918 þegar 18 framboð voru, „en þá var þetta persónukjör,“ segir Eva.

Framboð til borgarstjórnar:

  1. Alþýðufylkingin
  2. Borgin okkar Reykjavík
  3. Flokkur fólksins
  4. Framsóknarflokkurinn
  5. Frelsisflokkurinn
  6. Höfuðborgarlistinn
  7. Íslenska þjóðfylkingin
  8. Karlalistinn
  9. Kvennahreyfingin
  10. Miðflokkurinn
  11. Píratar
  12. Samfylkingin
  13. Sjálfstæðisflokkurinn
  14. Sósíalistaflokkur Íslands
  15. Viðreisn
  16. Vinstrihreyfingin grænt framboð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert