Málflutningur ráðherra undarlegur

Formaður samninganefndar ljósmæðra segja rökstuðning fyrir launakröfum skýran.
Formaður samninganefndar ljósmæðra segja rökstuðning fyrir launakröfum skýran. mbl.is/Eggert

„Ég undrast að þetta komi frá heilbrigðisráðherra af því nú vorum við að funda með henni fyrir helgina og fórum vel yfir okkar rök. Þau hafa verið alveg borðliggjandi þannig þetta heldur ekki vatni hvað mig varðar. Alls ekki,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, um ummæli sem Svandís Svavarsdóttir lét falla í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Í þættinum sagði heilbrigðisráðherra að þegar ein stétt væri með sín mál í hnút væri ekki nóg að rökstyðja kröfur með því að segja þær sanngjarnar. Þegar þáttastjórnandi spurði Svandísi hvort henni þætti rökstuðningur ljósmæðra ófullnægjandi sagði hún að henni væri ekki kunnugt hver rökstuðningurinn væri.

Katrínu þykja þessi ummæli heilbrigðisráðherra undarleg. „Við erum með næsthæstu menntunarkröfu allra félaga innan BHM en samt erum við með þeim sem eru með lægstu meðalgrunnlaun þar inni. Við erum búnar að fá 17% af þessu svokallaða Salek viðmiði á meðan t.d. kennarar eru búnir að fá 54%. Það er alveg sama hvað er skoðað, við höfum dregist aftur úr í launþróun svo verulega að við stöndum alls ekki jafnfætis sambærilegum stéttum með svipaða menntun og ábyrgð í starfi.“

„Rökin eru alveg borðliggjandi. Þetta er undarlegur málflutningur hjá henni,“ segir Katrín.

Þætti vænt um að sjá tillögur heilbrigðisráðherra

Annað sem Svandís nefndi í þættinum í morgun var að stuðningur hennar við baráttu ljósmæðra gæti verið í gegn um stofnanirnar sjálfar, og nefndi til að mynda vinnutíma og vaktafyrirkomulag í því samhengi.

„Okkur þætti vænt um að sjá það. Við erum algjörlega til viðræðu og höfum verið það frá því að þessi samningalota byrjaði þannig okkur þætti verulega vænt um að sjá eitthvað koma frá henni,“ segir Katrín, en að allra helst vildu þær sjá eitthvað koma frá fjármálaráðherra.

„Við fögnum því og fögnum öllum eðlilegum samræðum og skoðanaskiptum og samningaviðræðum. Það hefur svolítið vantað, þó að þessir fundir með samninganefnd hafi heitið samningafundir þá hefur viðræðurnar alveg vantað í þá fundi.“

Katrín segir að ekki sé verið að koma til móts við ljósmæður og að þær séu tilbúnar að skoða allt, meðal annars tillögur heilbrigðisráðherra, væru þær formlega lagðar fram.

Ekki verið svigrúm fyrir neinar viðræður

Næsti samningafundur er á dagskrá á morgun en Katrín segir fundinn ekki leggjast sérstaklega vel í hana, sérstaklega ekki í ljósi þeirra orða sem Bjarni Benediktsson lét falla í samtali við RÚV í gærkvöldi, á alþjóðadegi ljósmæðra. Bjarni sagði kröfur ljós­mæðra tutt­ugu pró­sent­um hærri en það sem ríkið er reiðubúið að semja um og að ekki væri hægt að hækka laun ljós­mæðra marg­falt meira en laun annarra hópa.

„Ég hef sterka trú á því að réttlætið og sanngirnin vinni alltaf að lokum en manni finnst þetta enn eitt rothöggið sem kom frá honum í gær. Maður veit að samninganefndin vinnur í hans umboði og maður hefur upplifað það hingað til að samninganefndin sé umboðslaus til að gera neitt nema halda í þessi 4,21% sem lagt var upp með í upphafi. Það hefur ekki verið svigrúm fyrir neinar samræður eða viðræður um neitt annað.“

Katrín segir þetta grafa undan því að hún geti leyft sér einhverja sérstaka bjartsýni fyrir fundinn á morgun. Hún segir mikið þurfa að gerast til að hægt sé að ná sáttum í málinu. „Það þarf allavega eitthvað að gerast annað en svona skítkast. Fólk þarf að stíga niður af pallinum og koma í eðlilegar viðræður og samræður en ekki svona skítkast í gegn um fjölmiðla. Svo höfum við aldrei hitt Bjarna, við fáum ekki einu sinni fund með honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert