„Laun forstjóra hækkuðu ekki“

Sautján þjón­ustu­full­trú­ar í Hörpu, þar á meðal all­ir vakt­stjór­ar, sögðu …
Sautján þjón­ustu­full­trú­ar í Hörpu, þar á meðal all­ir vakt­stjór­ar, sögðu upp störf­um í gær í kjöl­far fund­ar með for­stjóra Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórður Sverrisson, stjórnarformaður tónlistar- og ráðstefnuhússin Hörpu, segir það ekki rétt að laun Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, hafi hækkað um 20% eftir tvo mánuði í starfi, líkt og greint hefur verið frá. „Það voru sagðar falsfréttir um að laun forstjóra hefðu hækkað um 20% sem er rangt,“ segir Þórður í samtali við mbl.is.

Sautján þjón­ustu­full­trú­ar í Hörpu, þar á meðal all­ir vakt­stjór­ar, sögðu upp störf­um í gær í kjöl­far fund­ar með for­stjóra Hörpu. Uppsagnirnar komu í kjölfar fjöl­miðlaum­fjöll­unar um þjón­ustu­full­trúa í Hörpu sem of­bauð launa­hækk­un for­stjóra, sem var sögð 20%, svo að hann sagði upp. Þjónustufulltrúar í Hörpu tóku á sig launalækkun í sept­em­ber 2017 sem stjórnendur Hörpu sögðu vera hluta af sam­stilltu átaki um að rétta af fjár­hag Hörpu.

Þórður vísar í yfirlýsingar stjórnar Hörpu frá því í síðustu viku þar sem fram kemur að Svanhildur Konráðsdóttir var ráðin forstjóri Hörpu í ársbyrjun 2017 og samkvæmt samningi áttu laun hennar að vera 1,5 milljónir króna á mánuði.

Í yf­ir­lýs­ing­unni segir að vegna breyt­inga á kjara­samn­ingi VR séu laun­in nú 1.567.500 kr. Þá seg­ir að 30. des­em­ber 2016 hafi ný lög verið samþykkt á Alþingi sem kváðu á um að frá 1. júlí 2017 skyldu laun for­stjóra rík­is­fyr­ir­tækja ákvörðuð af stjórn­um þeirra en ekki af kjararáði. Eft­ir að samið hafði verið um laun við nýj­an for­stjóra barst úr­sk­urður kjararáðs um að laun for­stjóra skyldu vera 1.308.736 kr. Því hafi for­stjóri samþykkt launa­lækk­un upp á 191.264 kr. fyrstu tvo mánuðina í starfi, en samn­ing­ur­inn gilti svo frá 1. júlí 2017. Um­sam­in laun séu því 14,6% hærri en niðurstaða kjararáðs.

Aðalatriði að fá frið í húsið

Svanhildur hefur nú óskað eftir því að laun hennar verði lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018 og að þau verði til samræmis við úrskurð kjararáðs frá 1. júlí 2017, það er rúmar 1,3 milljónir króna.

„Það finnst mér afskaplega drengilegt, því aðalatriði í þessu öllu er að það sé friður á starfsemi hússins. Það er afskaplega mikilvægt að núna þegar hún hefur stigið fram að við fáum aftur frið um starfsemina í húsinu og að allir haldi áfram að njóta að koma þangað,“ segir Þórður.

Laun hærri en kjarasamningar segja til um

Þórður segir að sér þyki afar leitt að þjónustufulltrúar hafi sagt upp störfum. „Mér finnst afleitt að missa þá úr þessum góða Hörpuhóp sem rekur húsið.“

Þórður segir þrátt fyrir launalækkun þjónustufulltrúa í fyrra sé Harpa að greiða þjónustufulltrúum laun sem eru 15% hærri en kjarasamningar VR segja til um. „Álagið lækkaði úr 27-40% í 15%. Harpa er engu að síður að greiða hærri laun en sambærileg menningarhús eru að gera. Við verðum að gæta jafnréttis við önnur hús sem og laun innanhúss hjá okkur,“ segir Þórður. 

Óvíst með næstu skref

Þórður segir að áhrif uppsagnanna séu óljós enn sem komið er. „Við eigum eftir að ræða þetta, en það er þriggja mánaða uppsagnafrestur og menn standa sína plikt eins og menn hafa gert hingað til með ágætum.“

„Aðalatriði núna er að menn fái réttar upplýsingar og að staðreyndir málsins séu ljósar. Við þurfum að vanda okkur,“ segir Þórður.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert