Borgarlína auki plássið á götunum

Dóra Björt oddviti Pírata sagði Borgarlínu m.a. snúast um að …
Dóra Björt oddviti Pírata sagði Borgarlínu m.a. snúast um að búa til aukið pláss á götunum fyrir þá sem þurfa að vera á bíl. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er engin barátta á milli Borgarlínu og einkabílsins, þessir hlutir vinna saman,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í borginni á opnum fundi í Gamla bíó í morgun. Andrés Magnússon, formaður Samtaka verslunar og þjónustu stýrði umræðum um samgöngumál á fundinum, þar sem oddvitar sjö framboða af þeim sem 16 sem bjóða fram í borginni voru saman komnir.

Andrés spurði stjórnmálafólkið að því hvernig mætti stytta ferðatíma innan borgarinnar og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að það verði að breyta ferðavenjum borgarbúa til að samgöngur höfuðborgarsvæðisins gangi betur upp.

Dagur sagði að Borgarlína væri efst á lista yfir aðgerðir sem ráðast þyrfti í og að einungis ósamstaða á meðal þeirra sem sækjast eftir sæti í borgarstjórn á komandi gæti komið í veg fyrir að verkefnið verði að veruleika, en sem kunnugt er hafa öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samþykkt svæðisskipulag sem gerir ráð fyrir Borgarlínu.

Auk flokkanna sem nú eru í meirihluta í borgarstjórn hefur Viðreisn talað fyrir Borgarlínu og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti flokksins sagði styttri ferðatíma og aukna tíðni ferða vera það sem skipti notendur strætó máli. Það markmið náist með Borgarlínu.

Dóra Björt sagði Borgarlínu snúast um að búa til aukið pláss á götunum fyrir þá sem þurfi að keyra, en að ungt fólk í borginni taki sjaldnar bílpróf og vilji gjarnan nota almenningssamgöngur.

Aðrir flokkar, meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn, hafa talað um að bæta almenningssamgöngur á annan hátt en með borgarlínuverkefninu.

Eyþór Arnalds sagði á fundinum að síðasti áratugur hafi verið „áratugur hinna glötuðu tækifæra“ í samgöngumálum borgarinnar og að það þurfi að ráðast í stórátak í vegaframkvæmdum og bæta almenningssamgöngur. Nefndi Eyþór meðal annars að ekki væri lengur hægt að kaupa farmiða í strætó á Hlemmi.

Framsóknarflokkurinn í borginni hefur talað fyrir því að það verði ókeypis í strætó og það segir Ingvar Jónsson oddviti flokksins að greiða muni fyrir samgöngum í borginni.

Líf Magneudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir á fundinum …
Líf Magneudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins sagði að borgaryfirvöld hefðu á undanförnum tíu árum slegið á frest mörgum vegaframkvæmdum til þess að forgangsraða í þágu almenningssamgangna með engum árangri. Vegna þessa hefði meðal annars sex mislægum gatnamótum í borginni verið slegið á frest, en alvarlegast væri hins vegar að ekki hefði verið ráðist í gerð Sundabrautar.

„Við viljum ekki gera Reykjavík að einum stórum mislægum gatnamótum,“ sagði Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna. Það sagði hún að þyrfti að hafa í huga er rætt væri um uppbyggingu samgönguinnviða í borginni.

Horfa má á fundinn í heild sinni á vef Samtaka atvinnulífsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert