„Með paradís allt í kringum okkur“

Fannar Freyr kann vel við sig á hjólinu í íslenskri …
Fannar Freyr kann vel við sig á hjólinu í íslenskri náttúru. Mynd/Aðsend

Hjólreiðakappinn Fannar Freyr Atlason æfir bæði fjalla- og götuhjólreiðar af miklum krafti með hjólreiðafélaginu Tindi og er ein af björtustu hjólreiðastjörnum Íslands. Hann keppir reglulega á mótum og hefur náð góðum árangri, en næsta mót er einmitt í Öskjuhlíðinni á laugardag.

Fannar Freyr, sem er 14 ára, byrjaði að æfa hjólreiðar hjá Tindi fyrir nokkrum árum og nýtir nánast hverja stund, þegar hann er ekki í skólanum, í að leika sér á hjólinu eða fara á æfingar. „Ég hafði bara verið að leika mér að hjóli úti sjálfur eða með fjölskyldunni, en byrjaði fyrir alvöru þegar hann fór á hjólreiðaæfingar hjá hjólreiðafélaginu Tindi. Þetta er rosalega gaman,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Fannar Freyr hefur náð góðum árangri í fjallahjólakeppnum, en næsta …
Fannar Freyr hefur náð góðum árangri í fjallahjólakeppnum, en næsta mót er á laugardag. Mynd/Snorri þór

Bæði fjölskylda og vinir eru líka á kafi í hjólreiðasportinu, en hann hefur eignast góðan vinahóp í gegnum hjólreiðarnar. „Þetta er þannig sport að það eru allir með í þessu,“ segir Fannar Freyr sem nýtir náttúruna í kringum borgina mikið til hjólreiða.

„Ég og pabbi förum oft í Jaðarinn, sem hjólaleið frá Bláfjöllum niður í Norðlingaholt. Ég fer líka með vinum mínum í Snöruna sem er í Henglinum. Það er rosalega skemmtileg leið. Svo höfum við líka að fara í Landmannalaugar. Fyrst og fremst er þetta samt Öskjuhlíð og Heiðmörk, en þangað fer ég oft eftir skóla.“

Á sumrin æfir hann nánast á  hverjum degi en tekur inn á milli „recovery“ daga. Sérstaklega ef hefur tekið mikið á því. „Þá hvílir maður fæturna og undirbýr sig fyrir næstu viku. Annars þá skipti ég á milli þess að vera á fjalla- og götuhjóli.“

Á veturna skellir hann nagladekkjum undir hjólið og leikur sér úti eins og hægt er, en formlegar æfingar fara að mestu leyti fram innandyra á sérstökum æfingahjólum.

Mynd/Dagur Eggertsson

Fannar Frey langar mikið að fara til Whistler í Kanada, skammt fyrir utan Vancouver, og prófa að hjóla þar. Honum finnst þó alls ekki minna spennandi að hjóla í íslenskri náttúru og telur fólk oft vanmeta hana. „Mig langar að fara oftar í Landmannalaugar og á fleiri staði. Maður gleymir því svo oft að við búum á Íslandi og erum með þessa paradís allt í kringum okkur. Ég er líka á skíðum. Það eru svo margir sem fara út að skíða, en gleyma því að við erum með til dæmis Tröllaskagann og fleiri frábæra staði hérna á Íslandi. Við getum nýtt þessa staði.“

Fannar Freyr, sem keppir í flokki U15, er spenntur fyrir mótinu um helgina, en hann fékk nýtt hjól í gær sem hann ætlar að keppa á. „Þetta er cross-country hjól sem er fjallahjól byggt til að ná góðum hraða, en ekki til að stökkva fram af stærstu klettunum. Ég er rosalega spenntur að prófa það.“

Hann segist finna vel fyrir auknum áhuga á hjólreiðum á Íslandi, enda alltaf að bætast fleiri og fleiri í hópinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert