Ákærður fyrir raðfróun

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir kynferðisbrot, …
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir kynferðisbrot, þjófnað og umferðalagabrot. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa fróað sér á almannafæri og sært blygðunarsemi þeirra sem urðu að því vitni og var til opinbers hneykslis.

Ákæran var birt í Lögbirtingablaðinu þar sem ekki hefur náðst að birta manninum ákæruna, en maðurinn er óstaðsettur í hús og ekki með lögheimili á íslandi.

Brot mannsins áttu sér stað á árunum 2013-2017 og eru sex talsins. Brotin áttu sér ýmist stað í bíl mannsins, í undirgöngum eða við kvikmyndahús í Breiðholti eða við byggingarsvæði í Kópavogi. Í eitt skiptið lagði maðurinn bíl sínum við Þjóðmenningarhúsið í Reykjavík, opnaði hurðina þar sem hann sat í ökumannssætinu og fróaði sér. Að minnsta kosti ellefu manns urðu vitni af athæfi mannsins og var sá yngsti tveggja ára þegar brotið átti sér stað.  

Sakaður um að stela nautalundum úr Krónunni

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir fjölda þjófnaða, eða átta talsins. Hann er meðal annars ákærður fyrir að hafa stolið snjallúri úr verslun Elko, nautalundum, hreinlætisvörum auk innkaupakerru úr verslun Krónunnar.

Að lokum er maðurinn ákærður fyrir fjögur umferðalagabrot fyrir hraðakstur og fyrir að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Í einu brotanna ók hann á lögreglubifreið og stakk af. Lögreglan veitti honum eftirför og þegar maðurinn stöðvaði loks bílinn hljóp hann í burtu.

Krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttinda. Af hálfu vitnanna í kynferðisbrotamálunum er farið fram á samtals þrjár milljónir í miskabætur, ásamt vöxtum.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. júní. Sæki ákærði ekki þing má hann búast við því að verða handtekinn og færður fyrir dóm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert