Segir Ragnar fara fram með offorsi

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við Ragnar höfum verið ósammála um leiðir í kjarabaráttu, það er engin launung á því, en mér þykir nokkuð merkilegt að hann vilji fara fram með þessu offorsi til þess að banna umræðu. Ég er talsmaður þess að eiga samtal, bæði við samherja mína og andstæðinga og ég lít nú á Ragnar sem samherja minn. Við erum að sinna baráttu sömu hópanna.“

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is, inntur eftir viðbrögðum við ummælum Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í Morgunblaðinu í dag þess efnis að hann ætli að lýsa vantrausti á Gylfa öðru hvoru megin við helgina. Hann hafi áður lýst vantrausti á Gylfa en ætli núna að gera það með formlegum hætti.

Tilefnið er myndband á vegum ASÍ sem VR og Framsýn hafa sagt gera lítið úr kjarabaráttu verkafólks. Farið er yfir þróun kjaramála í myndbandinu undanfarna áratugi og færð rök fyrir því að „vel skipulögð sókn með raunhæf langtímamarkmið“ hafi skilað launafólki meiri kjarabót en átök fyrri áratuga. Kröfu um að taka myndbandið niður var hafnað af ASÍ.

„Það er náttúrulega ekkert nýtt að Ragnar lýsi yfir vantrausti á mig. Hann hefur gert það áður eins og haft er eftir honum í fréttinni. Nú ætlar hann að gera það með formlegum hætti og ég bíð bara spenntur eftir því að sjá hvernig það verður,“ segir Gylfi. Bendir hann á að næsta þing ASÍ fari fram í október í haust og fram að því hafi hann fullt umboð.

Ræði hvort breyta eigi stefnunni

„ASÍ hefur býsna lengi haft mjög skýra stefnu og afstöðu til þessa viðfangsefnis. Sumt af því er formlega á könnu sambandsins, til að mynda samskipti við stjórnvöld. Við höfum verið mjög gagnrýnin á stjórnvöld á undanförnum árum vegna þess að við teljum þau ekki skipta kökunni rétt,“ segir Gylfi. Eins sé ljóst að samningarétturinn sé hjá aðildarfélögunum.

„Hins vegar hafa aðildarfélög ASÍ á undanförnum áratugum, eiginlega frá upphafi þessarar baráttu, freistað þess að hafa einhverja sameiginlega sýn á aðferðir í kjarabaráttu. Það hafa alveg skipst á skin og skúrir í þeim efnum og verið mismunandi stefnur mótaðar,“ segir hann. Til að mynda hafi orðið stefnubreyting 1990 með þjóðarsáttinni svokallaðri.

„Mér finnst full ástæða til þess að ræða það bara opinskátt hvort tími sé kominn til þess að breyta þessari stefnu aftur. Ég er alveg til í þá umræðu á meðal aðildarfélaga ASÍ og okkar félagsmanna. Á endanum treysti ég því að þeir muni eins og alltaf komast að skynsamlegri niðurstöðu sem verði einfaldlega rétt. En það gerist ekki með því að banna umræðu.“

„Ég er einmitt að tala við grasrótina“

Gylfi segir að samtök eins og ASÍ með um 120 þúsund félagsmenn geti ekki leyft sér að, og megi ekki, banna umræðu og að það gert á grundvelli yfirlýsinga um að grasrótin eigi að ráða. „Ég er einmitt að tala við grasrótina, beina til hennar upplýsingum og segja: Hvað viljið þið gera með þessa stefnu. Þá vilja þeir sem kenna sig við grasrótina banna umræðuna.“

Gylfi segir að ASÍ sé stolt af þeirri stefnu sem sambandið hafi mótað og telji að hún hafi skilað árangri. Mælikvarðinn á það sé kaupmáttur, hversu mikið hægt sé að fá fyrir krónurnar. Hann vísað þeirri gagnrýni Ragnars Þórs á bug að ekki sé komið inn á bankahrunið í myndbandinu enda komi fram að þá hafi orðið lækkun á kaupmætti.

„Hins vegar er ekki hægt að koma allri sögu kjarabaráttunnar fyrir í einnar mínútu umfjöllun um kjarabaráttu. Enda erum við með tvö önnur myndbönd sem minna hefur verið talað um. Meðal annars um framgöngu stjórnvalda. Ég held að við Ragnar séum sammála í þeim efnum sem er kannski ástæða fyrir því að hann minnist ekkert á það myndband.“

Hótanir afleiðing viðbragðsleysis

Gylfi segir hafa vantað að fá fram í hverju stefnumunurinn á milli hans og Ragnars liggi. „Við þekkjum persónumuninn og allt í lagi með það. Hann hefur til að mynda farið gegn mér sem forsetaefni. Það er ekkert nýtt og ekkert við því að segja. En hreyfingin og samfélagið allt hlýtur að kalla eftir því hver stefnumunurinn sé og láta þá umræðuna hverfast um það.“

„Ég ber auðvitað þá skyldu gagnvart mínum samtökum að stuðla að upplýstri umræðu,“ segir Gylfi. Hann kippi sér ekkert upp við það að forystumenn stéttarfélaga hóti átökum á vinnumarkaði. Hótanir séu vegna þess að ekki sé verið að hlusta og framkvæma. Þar skipti aðkoma stjórnvalda miklu máli sem geti liðkað fyrir samningum með ýmsum móti.

„Þegar samtal hefur átt sér stað lengi um erfiðleika okkar fólks og á móti kemur aðeins sinnuleysi og viðbragðsleysi þá eru stjórnvöld ekki í aðstöðu til þess að lýsa yfir furðu á því að samtal breytist í hótanir. Forsætisráðherra verður að átta sig á því að ekki er nóg að lýsa yfir skilningi á aðstæðum fólks. Það verður að gera eitthvað til að breyta þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert