Íslenskt ál hluti af lausn í loftslagsmálum

Ál er um 35-40% af íslenskum útflutningi. Mynd úr safni.
Ál er um 35-40% af íslenskum útflutningi. Mynd úr safni. AFP

Íslenskt ál er hluti af lausninni í loftslagsmálum og íslenskur áliðnaður er í fremstu röð í heiminum hvað umhverfismál varðar. Þetta sagði Ragnar Guðmundsson, stjórnarformaður Samáls, á ársfundi samtakanna í Hörpu í morgun. Hann gagnrýndi jafnframt að litlar breytingar væru sjáanlegar á raforkumarkaði.

Sagði Ragnar útflutningsverðmæti íslenskra álfyrirtækna hafa numið um 207 milljörðum króna árið 2017 og hafi hækkaði nokkuð frá fyrra ári í krónum talið þrátt fyrir gengislækkun dollars gagnvart krónu. Heildarútflutningur landsins til samanburðar hafi numið rúmlega 500 milljörðum króna. Álið sé  ca. 35-40% af íslenskum útflutningi sem sé svipað og fiskútflutningur. „Áliðnaðurinn hefur því fest sig í sessi sem ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs,“ sagði Ragnar og kvað álverð hafa farið hækkandi undanfarin misseri og eftirspurn eftir áli á heimsvísu hafi farið vaxandi um þrjár milljónir tonna á ári. „Vaxandi notkun kallar þannig á tíu ný álver eins og á Grundartanga á hverju ári,“ sagði hann.

Full ástæða væri hins vegar til að hafa áhyggjur af stöðu loftslagsmála og leita lausna til að sporna við þróuninni. „Við sáum það greinilega á liðnu ári að stóriðja og stóriðja er ekki sami hluturinn,“ sagði Ragnar og vísaði þar til vandkvæðanna hjá kísilveri United Silicon og kvað varhugavert að steypa öllum undir sama hatt. Álfyrirtækin vilji hins vegar og ætli sér að gera betur.  

Ragnar Guðmundsson, stjórnarformaður Samáls.
Ragnar Guðmundsson, stjórnarformaður Samáls.

Myndi spara 550 milljón tonna kolefnisígilda

Álið sé líka hluti á lausninni í loftslagsmálum. „Ál er notað til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því t.d. að létta bifreiðar og flugvélar. Það er notað í byggingar til að draga úr orkukostnaði við kælingu, það er notað í innkaupum matvæla til að draga úr matarsóun og margt fleira,“ sagði Ragnar og bætti við að ekki sé hins vegar sama með hvað hætti álið sé framleitt.

„Losun koltvísírings veldur hnattrænum áhrifum og því skiptir máli, hve mikil losunin er en það skiptir ekki máli hvar losunin fer fram. Álframleiðsla veldur losun, en hvergi er hún minni en hér, vegna þess að hér höfum við endurnýjanlega orku.“ Það valdi því að álfyrirtæki Íslendinga séu fremst í flokki. „Ef allt ál í heiminum væri framleitt með sama hætti og á Íslandi myndu sparast 550 milljón tonna kolefnisígilda á ári,“ sagði Ragnar og nefndi til samanburðar að heildarlosun Íslands nemi 4,5 milljónum tonna.

„Íslenskt ál er hluti af lausninni í loftslagsmálum og íslenskur áliðnaður er í fremstu röð í heiminum hvað umhverfismál varðar.“

Fjarðarál í Reyðarfirði. Mynd úr safni.
Fjarðarál í Reyðarfirði. Mynd úr safni. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Engir virkjanakostir í boði fyrir nýja aðila á markaðinum 

Raforkumál landsins séu hins vegar komin að ákveðnum tímamótum og nú þurfi að fara að móta framtíðina og forgangsraða, enda geri samfélagið orðið mun meiri kröfur til raforkuframleiðslu, flutnings og dreifingar. „Við mótun raforkustefnu gefst tækifæri til að fara yfir málin frá öllum hliðum og við sem notum 70% af framleiddri raforku á Íslandi erum svo sannarlega tilbúin í þessa umræðu.“

Engir virkjanakostir séu þó í boði fyrir nýja aðila á markaðnum næstu árin og líkt og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hafi bent á á ársfundi Landsvirkjunar í gær, þá hafi breytingar á lögum sem auka áttu samkeppni á raforkumarkaði árið 2003 skilað litlu.

„Þegar horft er til framtíðar í verkaskiptingu í nýtingaflokki rammaáætlunar þá eru það sömu þrjú fyrirtækin sem ráða öllu,“ sagði Ragnar. Breytingin sé sú að meiri áhersla sé lögð á jarðvarma, enda hafi Landsvirkjun og Orka Náttúrunnar hafa lýst því yfir að þau stefni ekki að nýjum virkjunum í náinni framtíð. „HS Orka virðist vera eina fyrirtækið sem hyggur á framkvæmdir á næstu árum. Það eru því litlar breytingar sjáanlegar. Engir virkjanakostir eru í boði á næstunni fyrir nýja aðila á markaðnum og það verða áfram nánast allir vatnsaflskostir í einu fyrirtæki.“

Þrefaldast í verði frá 2013

Þar sem vatnsorka sé eini sveiflanlegi orkugjafinn á Íslandi gefi það auga leið að ekki sé hægt að tala um alvöru samkeppnismarkað.

Staðan í raforkuflutningsmálum er líka mörgum áhyggjuefni að sögn Ragnars. „Samkeppnishæfni varðandi flutningsöryggi og flutningskostnað er öllum notendum mikilvæg, en ljóst er að kostnaður er hærri hér en í samkeppnislöndum okkar. Þetta á ekki bara við um stóriðju því við þurfum líka að ræða um lausnir varðandi fiskimjöl og garðyrkjubændur svo dæmi séu tekin.“

Rætur þessara vandamála liggi m.a. í flóknu regluverki og þeirri staðreynd að framleiðendur raforku eiga og stjórna Landsneti. „Þessu þarf að breyta,“ sagði Ragnar. „Önnur birtingamynd þessa undarlega kerfis er að með flutningi um raforkukerfi tapast um 2% af raforkunni sem sett er inn á kerfið. Landsnet kaupir þessi 2% raforku frá framleiðendum og sendir svo öllum raforkunotendum reikninginn.“

Kostnaður notenda við 2% hafi verið 700 milljónir árið 2013, en tveir milljarðar árið 2017. „Þessi litlu 2% hafa nánast þrefaldast í verði síðan 2013. Einingaverð í þessum viðskiptum er nánast tvöfalt hærra en meðalverð til stóriðju og raforkunotendur hafa ekki haft neina leið til að verja sig gegn þessum hækkunum, því þeim er ekki boðið upp á að vera með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert