Persónuverndarlög erfið félagssamtökum

Félagasamtök búa yfir miklu magni upplýsinga sem eru persónugreinanlegar.
Félagasamtök búa yfir miklu magni upplýsinga sem eru persónugreinanlegar. mbl.is/Hanna

Ekki er ljóst hvort félagasamtök séu í stakk búin til að framfylgja nýrri reglugerð um persónuvernd, en hin væntanlega reglugerð nær til persónugreinanlegra upplýsinga sem mörg félagasamtök búa yfir.

Þorsteinn Júlíus Árnason, héraðsdómslögmaður hjá PACTA lögmönnum, segir í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, að þessi nýja reglugerð sé það umfangsmikil að það hefur tekið fyrirtæki og stofnanir langan tíma að undirbúa sig og að erfitt gæti verið fyrir íþróttafélög að fylgja ákvæðum reglugerðarinnar.

Þorsteinn Júlíus Árnason
Þorsteinn Júlíus Árnason Ljósmynd/PACTA

Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn að þetta gæti einnig átt við félagasamtök almennt, þó svo að einhverjar undanþágur kunna að vera varðandi vissar tegundir samtaka. Nær reglugerðin til allra persónugreinanlegra upplýsinga og meðferð þeirra. Hann bendir á að félagsstarf sé oft rekið á grundvelli sjálfboðavinnu og það sé almennt ekki mikil yfirbygging til staðar. Getur því orðið erfitt að mæta kröfum reglugerðarinnar.

Þá hafa fyrirtæki og opinberir aðilar þegar lýst erfiðleikum við að mæta kröfum persónuverndarákvæðum hinna nýju reglna frá Evrópusambandinu.

Samkvæmt Þorsteini er megintilgangur reglugerðarinnar að ná til stórra aðila sem búa yfir miklu magni upplýsinga eins og til að mynda Google og Facebook, en persónugreinanlegar upplýsingar eru að finna víða. Hann segir að deilur geta komið upp um hvaða upplýsingar eigi að flokkast sem persónugreinanlegar og úr því geta orðið dómsmál sem munu hafa áhrif á umfang reglugerðarinnar.

Réttur til að gleymast

Nýja reglugerðin felur í sér að persónuupplýsingar séu í raun eign þeirra sem upplýsingarnar snúa að og notkun þeirra þarfnist samþykki umrædds einstaklings. Einnig eiga einstaklingar að vita hvaða upplýsingar eru hjá viðkomandi stofnun, fyrirtæki eða samtökum. Jafnframt eiga einstaklingar að geta afturkallað samþykki sitt og farið fram á að upplýsingar um þá verði eytt. „Það er meðal annars verið að lögfesta réttinn til að gleymast,“ segir Þorsteinn.

Í nokkur ár hafa ýmis yfirvöld farið fram á við stórfyrirtæki eins og Google að framfylgja lögfestan rétt einstaklinga til að gleymast, Google hefur ekki orðið við þessu. Bundnar eru vonir við að þessi nýja reglugerð nái bættum árangri í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert