Birtir samskipti oddvita við Vesturverk og HS Orku

Miklar deilur geysa í Árneshreppi sem er jafnframt fámennasta sveitarfélag …
Miklar deilur geysa í Árneshreppi sem er jafnframt fámennasta sveitarfélag landsins. mbl.is/Golli

„Þetta er mun verra en ég átti von á,“ segir Pétur Húni Björnsson, stjórnarmaður í Rjúkanda, samtaka um verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi, við mbl.is um samskipti Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita hreppsins, við Vesturverk og HS Orku, sem hyggjast reisa Hvalár­virkj­un á Ófeigs­fjarðar­heiði. Gögnin fékk Pétur eftir að hafa farið fram á að fá afrit af samskiptum Árneshrepps við Vesturverk og HS Orku á grundvelli upplýsingalaga.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, vildi ekki tjá sig um tölvupóstana er mbl.is leitaði eftir því.

Samkvæmt gögnunum sem Pétur hefur fengið afhent, og send voru til mbl.is sem og annarra fjölmiðla í dag, hefur oddviti Árneshrepps meðal annars leitað til Vesturverks og HS Orku til þess að fá aðstoð við að gera umsagnir sem Skipulagsstofnun óskaði eftir frá hreppnum, jafnframt því að veita hagsmunaaðila skýrslu af fundi hreppsnefndar ásamt fundargerð.

„Lærð“ stikkorð

16. júlí 2015 berst Árneshreppi formleg beiðni frá Skipulagsstofnun um umsögn sveitarfélagsins þannig að hægt verði að vinna áfram með skipulagsmál svæðisins hjá stofnuninni. Sama dag svarar oddviti Árneshrepps stofnuninni og spyr hvað þurfi að koma fram í slíkri umsögn. Starfsmaður Skipulagsstofnunar svarar samstundis og segir meðal annars:

„Í þessu plaggi sem nú er til kynningar (tillaga að matsáætlun) er lýsing á framkvæmdinni, hvaða þættir það eru í umhverfinu sem talið er geta orðið fyrir áhrifum og með hvaða hætti á að rannsaka þá og meta hvaða áhrif framkvæmdin mun geta haft á þá.

Því er mjög mikilvægt – sérstaklega þar sem þið þekkið svæðið nú líklega best, að fá frá ykkur hvort þið teljið tilefni til þess að fleiri þættir umhverfisins verði teknir til skoðunar og þá ef þið hafið einhverjar athugsemdir við hvernig standa á að matinu og framsetningu þess. Eins ef þið hafið einhverjar athugsemdir við hvernig standa á að málinu og framsetningu þess. Eins ef þið hafið tillögur að útfærslu framkvæmda eða mögulegum valkostum.“

Eva sendir síðan erindi Skipulagsstofnunar beint á Gunnar Gauk Magnússon, framkvæmdastjóra Vesturverks, og Ásgeir Margeirsson, forstjóra HS Orku, og skrifar:

„Ég áframsendi ykkur hér með póst frá Skipulagsstofnun þar sem þeir eru að fara fram á formlega umsögn frá sveitarfélaginu varðandi virkjunarmálin. Getið þið ekki sent okkur einhver „lærð“ stikkorð sem gætu nýst okkur til að skrifa svona umsögn.“

Viðkvæmastir fyrir neikvæðri umsögn

25. júlí 2016 sendir Eva fyrirspurn til Gunnars. Þar skrifar hún:

„Nú fer að líða að því að hreppsnefnd þurfi að skila umsögn sinni um frummatsskýrsluna varðandi Hvalárvirkjun. Ég fékk send eintök af henni og viðaukum fyrir alla í hreppsnefnd og því vona ég að við komum öll sæmilega undirbúin til fundar þar sem við ákveðum hvernig umsögnin á að hljóða. Mér þætti mjög vænt um ef þú vildir senda mér einhverja punkta sem þú telur að sé gott að hafa með.“

Þessari fyrirspurn svarar Gunnar 26. júlí 2016 og segir meðal annars:

„Nú fórstu alveg með það Eva, ég veit ekki hvað skal segja varðandi umsögnina. Við erum að sjálfsögðu viðkvæmastir fyrir neikvæðri umsögn sem varðar náttúrufar og vatnafar á virkjunarsvæðinu. Það er helst það sem gæti stöðvað okkur.“

Komast ekki upp með að ræða tillögur

16. ágúst 2017 sendir oddvitinn tölvupóst til Gunnars og Ásgeirs í kjölfar hreppsnefndar funds. Þar talar hún m.a. um tillögur sem tveir hreppsnefndarmenn, sem andsnúnir eru virkjuninni, hafi viljað ræða á fundinum:

„Sælir verið þið.

Ég sendi ykkur hérna í viðhengi fundargerðina frá í gær.  Eins og þið sjáið komu þau Hrefna [Þorvaldsdóttir] og Ingólfur [Benediktsson] með tillögur sem þau vildu láta ræða á fundinum, en vegna þess að Bogi [skipulagsfulltrúi] var viðstaddur komust þau ekkert upp með það.  Við áttum bara að fjalla um það hvort við værum tilbúin að láta aðalsk.og deilisk. fara í auglýsingu.  Og okkur tóks[t] að afgreiða málið en tillögur þeirra voru bókaðar inn í fundargerðina.

Samkvæmt ábendingum frá Guðjóni Bragasyni hjá Samb.ísl.sveitarf. skrifaði ég  í gær Jóni Jónssyni lögfræðingi á Egilsstöðum til að biðja hann að vera okkur innan handar næstu mánuði hvað varðar lögfræðilega þjónustu.  Hann féllst sem betur fer á það, hann hringdi í mig í morgun og við áttum langt tal saman.  Svo að mér líður alla vega mun betur með framþróunina ef áður. Nú er bara að fá þau hin Ml þess að samþykkja það að við fáum lögfræðiaðstoð við þessi mál, við hljótum alla vega að hafa meirihluta í hreppsnefndinni fyrir því. Þetta var skýrsla dagsins.......  =)

Bestu kveðjur frá Árneshreppi, Eva S.oddviti.“

Þessu svarar Gunnar:

„Sæl Eva,

Takk kærlega fyrir þetta. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir hreppinn svo og okkur.  Sendi hér slóð á góða grein sem er í vísir í dag. Hún er holl lesning fyrir alla.“

Sendi fyrirspurn íbúa á framkvæmdaaðila

Pétur Húni fékk einnig send samskipti Evu og Vigdísar Grímsdóttur, íbúa í Árneshreppi. Vigdís sendir hreppsnefnd fyrirspurn þann 19. janúar í ár þar sem hún óskar svara við því hver beinn ávinningur sveitarfélagsins verði af fyrirhugaðri Hvalárvirkjun og af hvaða mannvirkjum verði greidd fasteignagjöld.

Þessa fyrirspurn sendir Eva til Gunnars og Ásgeirs, þann 22. janúar. Í póstinum biður hún þá um að svara spurningunum þar sem hún sé önnum kafin við undirbúning næsta hreppsnefndarfundar. „Þannig að ef þið hafið nokkurn möguleika á svörum, væri það fínt og ég yrði mjög þakklát,“ skrifar Eva m.a.

Gunnar Gaukur svarar þeim pósti sama dag þar sem hann fer yfir áætlun Vesturverks um möguleg fasteignagjöld. 

Samkvæmt þeim gögnum sem Pétur sendi mbl.is svarar Vigdís Evu þar sem hún segir að sér sé brugðið við að sjá að hún hafi áframsent fyrirspurn hennar til hagsmunaaðila virkjunarinnar og láti þá um að svara henni. Svar Vigdísar er ekki meðal þeirra gagna sem Pétur fékk afhent frá oddvita en eru meðal gagna sem Pétur sendi fjölmiðlum í dag.

„Þú lætur ekki einu sinni svo lítið að fá samþykki mitt,“ skrifar Vigdís m.a. „Ég veit að þú hefur mikið að sýsla en það breytir ekki því að þetta eru hin undarlegustu vinnubrögð svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þú hlýtur að sjá það sjálf ef þú hugsar málið að þetta er hið mesta óráð. Þessir virkjunaraðilar eru ekki í hreppsnefnd Árneshrepps og þeir hafa því ekkert með að svara spurningum mínum til ykkar fyrir þína hönd þótt þú sért sammála þeim í einu og öllu varðandi Hvalárvirkjun.“

Pét­ur Húni seg­ir það sitt mat að eft­ir­lits­hlut­verk hrepps­nefnd­ar hafi verið fram­selt til hags­munaaðila og sak­ar odd­vita Árnes­hrepps um að „haga sér eins og starfs­mann HS Orku.“ 

Á Facebook-síðu Rjúkanda er í dag birt ítarleg færsla Péturs um málið og fylgir hún hér að neðan.

Eins og fyrr segir leitaði mbl.is tvívegis eftir viðbrögðum oddvitans sem vildi ekki tjá sig um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert