Falið vald yfir íslenskum málum

AFP

Persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins, sem taka á gildi í lok vikunnar, gerir ráð fyrir því að Evrópudómstólnum, æðsta dómstóli sambandsins, verði falin völd til þess að úrskurða með beinum hætti gagnvart Noregi í gegnum aðild landsins að EES-samningnum. Það sama á við um Ísland verði löggjöfin samþykkt á Alþingi en frumvarp þess efnis hefur ekki verið lagt fram.

Fram kemur í á norska fréttavefnum Abcnyheter.no að við upptöku persónuverndarlöggjafarinnar í EES-samninginn hafi ekki verið byggt á tveggja stoða kerfi hans en samkvæmt því eiga Ísland, Noregur og Liechtenstein, sem eiga aðild að samningnum í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) ekki að vera undir vald stofnana ESB sett heldur aðeins stofnanir á vegum EFTA.

Einnig segir að persónuverndarstofnun ESB verði veitt völd til þess að taka beinar ákvarðanir gagnvart innlendum eftirlitsstofnunum þeirra ríkja sem samþykkt hafa löggjöf sambandsins. Þar á meðal Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þar komi dómstóll ESB til sögunnar en uni eftirlitsstofnanirnar ekki ákvörðunum persónuverndarstofnun sambandsins skeri hann úr málum.

Þetta þýði að við innleiðingu á persónuverndarlöggjöfinni sé vikið frá venjubundinni innleiðingu á löggjöf frá ESB í gegnum EES-samninginn í norsk sem og íslensk lög. Þar er vísað til tveggja stoða kerfisins. Þar sé einnig vikið frá þeirri leið sem farin hafi verið varðandi aðild EFTA/EES-ríkjanna að yfirþjóðlegu fjármálaeftirliti ESB og orkustofnun sambandsins.

Þar taki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) formlega ákvarðanir gagnvart Íslandi, Noregi og Liechtenstein byggt á uppkasti frá stofnunum ESB og áfrýja verður til EFTA-dómstólsins. Hins vegar sé það ekki nýtt að EFTA/EES-ríkin hafi samþykkt hliðstæðar leiðir og fara eigi varðandi persónuverndarlöggjöfina þar sem löndin hafi samþykkt að fela stofnunum ESB ákvörðunarvald.

Horfið hafi verið frá tveggja stoða kerfinu í tilfelli persónuverndarlöggjafarinnar að sögn norska dómsmálaráðuneytisins vegna þess að kveðið sé á um ströng tímamörk í henni. Erfitt yrði að virða þau ef ESA ætti að „kópera“ ákvarðanir persónuverndarstofnunar ESB líkt og í tilfelli fjármálaeftirlits og orkustofnunar sambandsins. Þá skorti ESA sambærilega sérfræðiþekkingu.

Málið er sem fyrr segir til umfjöllunar í norska þinginu og hefur dómsmálanefnd þess meðal annars sent fjölda fyrirspurna til dómsmálaráðuneytis Noregs um hlutverk dómstóls ESB verði persónuverndarlöggjöf sambandsins samþykkt. Tor Mikkel Wara dómsmálaráðherra hefur varið þá leið sem valin var og sagt að valdaframsalið til ESB feli í sér „lítið inngrip“.

Bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa gagnrýnt ESB fyrir að virða ekki tveggja stoða kerfið. Bjarni sagði á Alþingi í vetur að í hverju málinu á fætur öðru gerði ESB kröfu um að Ísland samþykkti að fara beint undir boðvald stofnana sambandsins  Með því væri vegið að grunnstoðum EES-samningsins, tveggja stoða kerfinu.

Bjarni gagnrýndi ennfremur hin EFTA/EES-ríkin, Noreg og Liechtenstein, fyrir að láta undan kröfum ESB áður en ríkin þrjú hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þá stæði Ísland eitt eftir með þá kröfu að byggt væri á tveggja stoða kerfinu. Sagði Bjarni málið gríðarlega alvarlegt. Tímabært væri að skoða stöðu EFTA/EES-ríkjanna gagnvart EES-samningnum alvarlega í ljósi þessa.

Rifjað er upp í frétt Abcnyheter.no að Bretar, sem séu á leið úr ESB, leggi ríka áherslu á að dómstóll sambandsins hafi ekki lengur beint vald yfir breskum málum eftir að út úr því verði komið. Á sama tíma sé stefnt í öfuga átt í tilfelli Noregs, og þar með Íslands að sama skapi, þegar komi að upptöku persónuverndarlöggjafar ESB í gegnum aðildina að EES-samningnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert