Vilja gera Sigríði að heiðursborgara

Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Tillaga hefur verið lögð fram af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og óháðum í Skagafirði um að Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagafjarðar, verði gerð að heiðursborgara sveitarfélagsins fyrir starf sitt að safnamálum og menningarmálum undanfarna þrjá áratugi og brautryðjendastarf við uppbyggingu safnsins.

„Byggðasafn Skagfirðinga hefur með starfi sínu og uppbyggingu verið eitt helsta flaggskip íslenskra safna á undanförnum árum. Þar hefur safnstjórinn, Sigríður Sigurðardóttir, unnið brautryðjendastarf með því öfluga teymi sem með henni hefur starfað í gegnum árin,“ segir í fréttatilkynningu frá VG og óháðum.

Rifjað er upp að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi á dögunum heiðrað Sigríði og Byggðasafnið með heimsókn til að kynna sér starfsemi safnsins og heiðra einstætt ævistarf hennar. Einnig að Byggðasafnið hafi hlotið Íslensku safnaverðlaunin 2016 en í rökstuðningi dómnefndar komi fram að starfsemi þess sé metnaðarfull og yfirgripsmikil og hlúð sé að hverjum þætti safnsins á faglegan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert