Lafhræddur í Rallýbíl

Ásgeir Páll lafhræddur og Rúnar Ólafsson ökumaður
Ásgeir Páll lafhræddur og Rúnar Ólafsson ökumaður skjáskot K100

Rúnar Ólafsson og Rafn Hlíðkvist keppa á Íslandsmeistarmótinu í rallýakstri sem hefst nú um helgina.  Rúnar er akstursíþróttamönnum að góðu kunnur en hann er að koma aftur inn í íþróttina eftir ára hlé.  Rafn er tengdasonur Rúnars og er alls óhræddur þó hann þurfi að sitja fram í hjá „tengdó“ sem situr við stýrið.  Rúnar segir að á 190 kílómetra hraða geti ýmislegt komið upp á:  „Ég hef lent í ýmsu misskemmtilegu en hef þó alltaf náð að ljúka keppni,“

Lafhræddur á sérleiðinni

Þeir félagar buðu útvarpsmanninum Ásgeiri Páli Ágústssyni að setjast í farþegasætið á einni sérleiðinni.  „Þessi leið liggur um Keflavíkurhöfn,“ sagði Rúnar og bætti við að þar sem leiðin væri malbikuð alla leið væri þetta róleg og þægileg ferð.  Annað átti eftir að koma á daginn því eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi stóð útvarpsmanninum alls ekki á sama á rallýleiðinni, enda rásaði bíllinn fram og til baka í beygjum.  Á einum stað má meðal annars sjá á ekki mátti miklu muna að hann hentist á nærliggjandi bíla sem lagt var við höfnina í Keflavík.  „Ég hef aldrei á ævinni orðið jafn hræddur,“ sagði Ásgeir eftir sérleiðina og lái honum hver sem vill.

Vinsælasti rallýbíll heims

Bíllinn sem Rúnar og Rafn keppa á er að þeirra sögn vinsælasti rallýbíll heims.  „Þetta er Ford Escort mk2 árgerð 1979.  Þessir bílar eru vinsælastir fyrir þær sakir að skemmtanagildið er mikið.“  Rúnar segir að skemmtanagildið við aksturinn sé stór hluti af ástæðu vinsældanna á þessum bílum.  “Hann er afturhjóladrifinn, með rassgatið út um allt og maður stendur skælbrosandi upp eftir að hafa keppt á honum."

Gríðarlegur öryggisútbúnaður

Miklar kröfur eru gerðar um öryggisútbúnað í rallýbílum.  Þar má nefna fimm punkta öryggisbelti, höfðið er skorðað af og allir í hjálmum.  Sætin eru djúp og þröng, allt gert til að þess að ökumaður og farþegi hreyfist sem minnst á þeim ofsahraða og í kröppum beygjum á miserfiðum sérleiðum í keppnum.  Rafn sló á létta strengi þegar talað var um þrengslin í sætunum, „Þetta eru sæti úr flugvélum frá Primera Air,“ sagði hann og hló.

Ljóst er að mikið fjör verður hjá strákunum og öðrum keppendum sem keppa á mótinu nú í sumar og meðfylgjandi myndband sínir svo ekki verður um villst að gæta þarf ítrustu varúðar þegar rallýkeppnir eru skipulagðar, en á sama tíma fá adrenalínfíklar ýmislegt fyrir sinn snúð.



Ford Escort mk2 árgerð 1979. Nýjasta viðbótin í hóp rallýbíla …
Ford Escort mk2 árgerð 1979. Nýjasta viðbótin í hóp rallýbíla hér á landi. Rúnar Ólafsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert