1.044 þungunarrof árið 2017

Annað árið í röð voru þungunarrof yfir eittþúsund.
Annað árið í röð voru þungunarrof yfir eittþúsund. mbl.is/

Annað árið í röð voru framkvæmd yfir 1.000 þungunarrof á Íslandi en þungunarrof voru 1.044 árið 2017 og 1.021 árinu á undan. Þetta kemur fram í fréttabréfi Landlæknis, Talnabrunni.

Þar kemur einnig fram að 2017 hafi 13,1 þungunarrof verið framkvæmt fyrir hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri sem talinn er vera frá 15 til 49 ára aldurs. Tæplega 53% þungunarrofa voru hjá konum 20 til 29 ára.

Þungunarrof hjá 15 til 19 ára stúlkum árið 2017 voru 12,4 á hverjar 1.000 stúlkur sem er svipað og árið áður. Þungunarrofum hjá yngsta aldursflokknum hefur fækkað mikið á undanförnum árum. Árið 1996 til 2000 voru þau 21,2 á hverjar 1.000 stúlkur og 18,8 að meðaltali 2001 til 2005, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Hér er hægt að lesa talnabrunn embætti landlæknis í heild

638 ófrjósemisaðgerðir

Á árinu 2017 voru framkvæmdar 638 ófrjósemisaðgerðir á Íslandi og er það svipaður fjöldi og undanfarin ár. Tæplega 85% allra aðgerða voru gerðar á körlum eða 542 aðgerðir. Samsvarar það 7,2 aðgerðum fyrir hverja 1.000 karlmenn á aldrinum 25-54 ára.

Ófrjósemisaðgerðir á konum voru 96 talsins árið 2017 eða 1,4 aðgerð fyrir hverjar 1.000 konur 25-54 ára. Er þetta í fyrsta sinn síðan skráning hófst sem árlegur heildarfjöldi ófrjósemisaðgerða á konum fer undir 100.

Undanfarna áratugi hefur mikil breyting orðið á hlutfalli karla og kvenna sem undirgangast ófrjósemisaðgerðir hér á landi. Ófrjósemisaðgerðum á körlum fjölgaði jafnt og þétt til ársins 2013 en síðan þá hefur heildarfjöldi aðgerða haldist nokkuð stöðugur. Á sama tíma hefur dregið verulega úr ófrjósemisaðgerðum meðal kvenna.

Þannig voru konur um 15% þeirra sem fóru í slíkar aðgerðir árið 2017, fyrir áratug voru ófrjósemisaðgerðir á konum hins vegar rúmlega 40% af heildarfjölda aðgerða og fyrir tuttugu árum voru þær tæplega 83% allra ófrjósemisaðgerða. Aldursbundin tíðni Ófrjósemisaðgerðir hafa um langt skeið verið algengastar hjá fólki á aldrinum 35 -44 ára og á það bæði við um karla og konur.

Árið 2017 voru gerðar 13,1 ófrjósemisaðgerðir fyrir hverja 1.000 karlmenn á þessum aldri en 2,4 aðgerðir fyrir hverjar 1.000 konur á sama aldri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert