Kjóar skotnir í algeru tilgangsleysi

Ljósmynd/Náttúrustofa Norðausturlands

„Þeir lágu bara þarna úti á móanum, á sínu óðali. Ég er búinn að labba þarna síðan 2009. Það eru alltaf tvö pör á þessum stað. Ég labbaði bara fram á hvar þau lágu þarna í gær, nýbúið að skjóta þau,“ segir Þorkell Lindberg Þórarinsson hjá Náttúrustofu Norðausturlands í samtali við mbl.is.

Starfsmenn stofunnar, sem um þessar mundir stendur í árlegum talningum á mófuglum, gengu fram á óhugnanlegan verknað í gær þar sem kjóapar hafði verið skotið með riffli. Náttúrustofa Norðausturlands greinir frá þessu á vef sínum í dag.

Ljósmynd/Náttúrustofa Norðausturlands

Á vefnum segir að um algert virðingarleysi gagnvart náttúrunni sé að ræða. Þar segir jafnframt að lífsbarátta kjóa sé hörð, og til vitnisburðar um það segir að kjóarnir ferðist um 14.000 kílómetra langa leið til þess að verpa eggjum sínum á Íslandi, en á veturna dvelja þeir meðal annars við Suður-Afríku og Argentínu.

Kjóar sækja sér fæðu í sjó en einnig með öðru einkennandi hátterni sem þeir hafa tileinkað sér til þess að komast af, en þeir ræna fæðu frá öðrum fuglum. Það gera þeir með því hrella sjófugla, svo sem kríur og lunda, sem bera smáfiska og aðra fæðu til unga sinna, svo þeir missa fæðuna og kjóarnir hirða upp. 

Þorkell segir kjóana líklega hafa verið skotna í vikunni. „Mér blöskraði þetta alveg ofboðslega, þetta virðingarleysi gagnvart þessum dýrum sem leggja svo mikið á sig til þess að lifa af. Þetta er gert í algeru tilgangsleysi. Maður skilur þetta ekki, að menn finni þetta hjá sér bara til þess að drepa, til þess að skemmta sjálfum sér eða eitthvað.“

Lífsbaráttan hörð hvert sem í horn er litið

„Vonandi vekur þessi pistill fólk til hugsunar um að bera virðingu fyrir öllu lífi, því lífsbaráttan er hörð hvert sem í horn er litið og allir þurfa að hafa fyrir sínu. Virðingin þarf að gilda almennt um auðlindanýtingu okkar og umgengni í náttúrunni. Einungis fáfræði og tilfinningasemi mannsins flokkar lífverur í góðar og vondar. Gild rök ætti að þurfa færa fram ef drepa á dýr, líkt og kjóann, til að verja tiltekna hagsmuni. Ekki er ólíklegt að kjóaparið á Hringveri hafi farið víðar um heiminn og séð meira á lífsleiðinni en sá er fann hjá sér löngun til að miða þau út í gegnum riffilkíkinn sinn, þar sem þau sátu friðsöm á óðali sínu, og taka í gikkinn.“ Svona endar pistill Náttúrustofu Norðausturlands um dráp kjóanna tveggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert