Upplausn í Kópavogi

Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs gæti verið fallinn.
Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs gæti verið fallinn. mbl.is

Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi hafa óvænt ákveðið að taka stöðu á móti því að starfa áfram með BF Viðreisn í meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi að því er greint var frá í kvöldfréttum RÚV.

Bæjarfulltrúarnir eru sagðir vera Margrét Friðriksdóttir, Karen Halldórsdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal. Þau höfðu samkvæmt heimildum RÚV ekki kunngert, fyrir kosningar eða í kosningabaráttunni, um andstöðu gagnvart samstarfi við BF Viðreisn og kemur útspil þeirra því mörgum mjög á óvart.

Theodóra Þorsteinsdóttir sagðist í samtali við mbl.is ekki geta staðfest þessa frétt RÚV en hafði þó heyrt af þessari stöðu fyrr í vikunni. Hún gat ekki svarað því hvort andstaða bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins væri tilkomin vegna hennar persónu eða ekki.

Ekki er ljóst hver rökin eru að baki afstöðu þeirra þriggja en því hefur verið fleygt fram að þau vilji ekki vinna með Theodóru og BF Viðreisn þar sem ekki sé um sama flokk að ræða og var í meirihluta fyrir kosningar þótt oddvitinn sé sá sami.

„Ég er fyrst og fremst að hugsa um það [að gera vel fyrir íbúa Kópavogs], við vorum kosin áfram af íbúum og mér finnst miður ef þetta snýst um einhverjar persónur,“ sagði Theodóra í samtali við mbl.is.

Hvorki náðist í Ármann né bæjarfulltrúana þrjá við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert