Fá hátt í 100 einkunnir

Eftir að nýtt námsmatskerfi var tekið upp, svokölluð hæfniviðmið, fær …
Eftir að nýtt námsmatskerfi var tekið upp, svokölluð hæfniviðmið, fær hver grunnskólanemandi miklu fleiri einkunnir en áður. mbl.is/​Hari

Eftir að nýtt námsmatskerfi var tekið upp, svokölluð hæfniviðmið, fær hver grunnskólanemandi miklu fleiri einkunnir en áður. Dæmi eru um að átta ára gömul börn fái hátt í 100 einkunnir, þar af 28 í íslensku og 11 í stærðfræði. Þessu fylgir mikil vinna fyrir grunnskólakennara.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir að til standi að taka upp viðræður um þetta við yfirvöld menntamála. Fátt bendi til að það bæti nám og kennslu. „Þetta námsmat átti að gefa betri sýn á stöðu nemandans, en það virðist ekki ná að gera það,“ segir Þorgerður. „Svo virðist sem foreldrar séu litlu betur settir með að átta sig á stöðu barna sinna.“

Ályktað var um námsmatið á síðasta aðalfundi FG og Þorgerður segir að til standi að ræða það á vettvangi menntamálaráðuneytisins. „Það er svo spurning hvort það verði sátt um að hafa þetta öðruvísi til framtíðar,“ segir hún.

Morgunblaðið ræddi við kennara sem hefur umsjón með 3. bekk í grunnskóla í Reykjavík. Í hans bekk eru 19 nemendur. „Svo eru nokkrir sem fá sérstakar umsagnir vegna þess að þeir eru með annað námsefni og eru því með annars konar námsmat sem er lagað að þeirra þörfum,“ segir kennarinn sem segir að í skólanum þar sem hann kennir spyrji margir sig þeirrar spurningar til hvers verið sé að vinna alla þessa vinnu.

Spurður um hversu mikill tími fari í að vinna námsmatið segir hann að erfitt sé að áætla það. „En ég get fullyrt að það er óratími. Það er hægt að nota veturinn og forvinna sumt. En í lok skólaársins þarf að yfirfara það allt hvort sem er.“

Í þessum tiltekna þriðja bekk eru gefin 28 hæfniviðmið í íslensku, 12 í stærðfræði, 11 í samfélagsfræði, 11 í upplýsinga- og tæknimennt, níu í íþróttum og samtals 21 í verklegum greinum. Að auki er gefin lokaeinkunn í hverri grein og þetta eru samtals 98 einkunnir á hvert barn. Áðurnefndur kennari kennir allar bóklegar greinar, sem eru þær fjórar fyrstnefndu og þarf því að gefa hverjum og einum af sínum 19 nemendum 62 einkunnir, auk lokaeinkunnar í hverri námsgrein, 66 einkunnir fyrir hvern og einn. Kennarinn þarf því að gefa samtals 1.254 einkunnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert