Fatimusjóðurinn gefur 5 milljónir til barna í Jemen

Fulltrúar Fatimusjóðsins afhentu í dag UNICEF á Íslandi 5 milljóna …
Fulltrúar Fatimusjóðsins afhentu í dag UNICEF á Íslandi 5 milljóna króna framlag sem rennur til stríðshrjáðra barna í Jemen. mbl.is/Hari

Fulltrúar Fatimusjóðsins afhentu í dag UNICEF á Íslandi 5 milljóna króna framlag sem rennur til stríðshrjáðra barna í Jemen. Upphæðin er afrakstur skákmaraþons Hrafns Jökulssonar og Hróksins í minningu Jóhönnu Kristjónsdóttur og er hluti af söfnunarátakinu Má ég segja þér soldið? sem UNICEF á Íslandi stendur fyrir.

Eftir margra ára átök ríkir gífurleg neyð í Jemen, sem er eitt fátækasta ríki heims. „Nú er svo komið að Jemen er einn versti staður í heimi til að vera barn og nánast hvert einasta barn í landinu þarfnast neyðaraðstoðar, að því er segir í fréttatilkynningu UNICEF. Þúsundir barna hafa látið lífið eða verið limlest í borgarastríðinu og lífum og framtíð margfalt fleiri barna er ógnað.

UNICEF er á vettvangi og hlúir að börnum og fjölskyldum þeirra og veitir nauðsynlega neyðaraðstoð, en talið er að hvert einasta barn í Jemen þarfnist neyðaraðstoðar.

Upphæðin sem fulltrúar Fatimusjóðsins afhentu UNICEF á Íslandi er afrakstur af skákmaraþoni Hrafns Jökulssonar og Hróksins sem haldið var í maí, en þá tefldu þeir Róbert Lagerman alls 250 skákir fyrir hönd Hróksins,. Var maraþonið teflt í minningu þess að 11. maí var ár liðið frá andláti Jóhönnu Kristjónsdóttur, stofnanda Fatimusjóðsins

Fatimusjóðurinn var stofnaður árið 2005 og var honum upphaflega ætlað að styðja við menntun barna í Jemen. Síðustu ár hefur hann hins vegar beitt sér fyrir margvíslegri uppbyggingu og neyðaraðstoð í Mið-Austurlöndum.

Sjóðurinn hefur verið í samstarfi við UNICEF undanfarin ár og safnað tugmilljónum króna fyrir börn í neyð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert