Hver eru laun sveitarstjórnarmanna?

Miklu munar á kjörum sveitarstjórnarmanna, nefndarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir …
Miklu munar á kjörum sveitarstjórnarmanna, nefndarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir íbúafjölda sveitarfélaganna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Umtalsverður munur er á kjörum kjörinna sveitarstjórnarmanna, nefndarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir íbúafjölda sveitarfélaga. Þetta kemur fram í skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga um kaup og kjör sveitarstjórnarmanna.

Í skýrslunni eru sveitarfélögin flokkuð niður í sex stærðarflokka og var sendur tölvupóstur til allra sveitarfélaga á landinu með rafrænum spurningalista þar sem óskað var eftir upplýsingunum. Alls bárust svör frá 63 sveitarfélögum af 74.

Íbúafjöldi Árneshrepps á Vestfjörðum var 46 í ársbyrjun 2017.
Íbúafjöldi Árneshrepps á Vestfjörðum var 46 í ársbyrjun 2017. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarfélög með færri en 200 íbúa

Sveitarfélög á Íslandi með færri en 200 íbúa eru þrettán talsins en svör bárust frá sex þeirra, eða tæplega helmingi. Heildarlaun framkvæmdastjóra sveitarfélaganna voru í tveimur tilfellum undir 400 þúsund krónum, á milli 400 og 699 þúsund kr. í þremur þeirra og yfir einni miljón kr. í einu sveitarfélagi.

Mánaðarlaun sveitarstjórnarmanna í sveitarfélögunum er á bilinu tíu til tuttugu þúsund krónur. Í fjórum sveitarfélaganna er sveitarstjórnarmönnum greitt fyrir hvern fund, í einu þeirra greidd bæði föst fjárhæð og þóknun fyrir hvern fund og í öðru greidd föst fjárhæð í hverju mánuði. 

Nefndarmenn fá í flestum tilvikum greitt fyrir hvern fund og nemur þóknunin í þremur tilvikum fimm til níu þúsund krónum og í þremur tilvikum tíu til fimmtán þúsund krónum. 

Í upphafi árs 2017 bjuggu í Tálknafjarðarhreppi 236.
Í upphafi árs 2017 bjuggu í Tálknafjarðarhreppi 236.

Sveitarfélög með 200 til 499 íbúa

Þrettán sveitarfélög á Íslandi eru með 200 til 499 íbúa og svöruðu tólf þeirra spurningum SÍS. Heildarmánaðalaun framkvæmdastjóra voru í fimm tilvikum 700 til 899 þúsund krónur, í fjórum tilvikum 900 til 999 þúsund krónur og í þremur tilvikum yfir einni milljón.

Mánaðarlaun sveitarstjórnarmanna vegna starfa í sveitarstjórn er í flestum tilvikum á bilinu 25 til 100 þúsund krónur og miðast greiðsla fyrir störf í sveitarstjórn oftast við fasta fjárhæð og þóknun fyrir hvern fund, en í tveimur sveitarfélögum miðast greiðsla fyrir störf við hvern fund og í fjórum sveitarfélögum er greidd föst fjárhæð á mánuði.

Þóknun fyrir nefndarfundi er í allt á milli undir tíu þúsund krónum á fund upp í 20 til 25 þúsund krónur á fund. Nefndarformenn fá í öllum sveitarfélögum álag ofan á nefndarþóknun.

Á Seyðisfirði voru íbúar 658 talsins í upphafi árs 2017.
Á Seyðisfirði voru íbúar 658 talsins í upphafi árs 2017. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Sveitarfélög með 500 til 999 íbúa

Öll fjórtán sveitarfélögin af þessari stærðargráðu svöruðu spurningum SÍS en heildarmánaðalaun framkvæmdastjóra sveitarfélaganna var í fjórum tilvikum á milli 800 og 999 þúsund, í fjórum tilvikum á milli einnar milljónar og 1.199 þúsund krónum og í sex sveitarfélögum frá 1.200 upp í 1.399 þúsund kr. 

Mánaðarlaun sveitarstjórnarmanna vegna starfa í sveitarstjórn er í flestum tilvikum á bilinu 25 til 100 þúsund krónur. Í átta tilvikum miðast launin við ákveðið hlutfall af þingfararkaupi, í tveimur tilvikum er um að ræða fasta fjárhæð sem fylgir breytingu á launavísitölu og í fjórum tilvikum er um annað fyrirkomulag að ræða. 

Í einu sveitarfélaganna er nefndarþóknun undir tíu þúsund krónum, í fjórum tilvikum 10 til 14 þúsund, í sex tilvikum 15 til 19 þúsund og í tveimur tvilkum 20 til 25 þúsund. 

Í Garði voru 1.511 íbúar 1. janúar 2017.
Í Garði voru 1.511 íbúar 1. janúar 2017. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarfélög með 1.000 til 1.999 íbúa

Ellefu af tólf sveitarfélögum í þessum stærðarflokki svöruðu spurningum Sambandsins og eru laun framkvæmdastjóra þeirra alls staðar yfir milljón á mánuði. Í fjórum sveitarfélögum eru launin á milli milljón og 1.299 þúsund, sex eru með 1.300 til 1.499 þúsund krónur og einn með 1.500 til 1.599 þúsund á mánuði. Hlunnindi eru allt að 199 þúsund krónur á mánuði.

Mánaðarlaun sveitarstjórnarmanna eru í sex tilvikum á milli 50 og 99 þúsund krónur á mánuði, í fjórum sveitarfélögum á milli 100 og 149 þúsund en í einu sveitarfélagi undir 25 þúsund krónum. Nefndarlaun eru yfirleitt á bilinu 10 til 19 þúsund krónur á fund.

Í Borgarbyggð var íbúafjöldi í ársbyrjun 2017 3.677.
Í Borgarbyggð var íbúafjöldi í ársbyrjun 2017 3.677. Sigurður Bogi Sævarsson Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarfélög með 2.000 til 4.999 íbúa

Öll þrettán sveitarfélög af þessum stærðarflokki svöruðu. Eitt svaraði ekki til um heildarlaun framkvæmdastjóra. Fjórir framkvæmdastjórar eru með 1.100 til 1.299 þúsund krónur, fimm með 1.300 til 1.499 þúsund og þrír með 1.500 til 1.699 þúsund kr. á mánuði. Hlunnindi, s.s. bifreiðastyrkur, sími, risna og húsnæðiskostnaður er allt að 199 þúsund kr. á mánuði og jafnast kjör framkvæmdastjóra nokkuð út þegar litið er til samtölu launa og hlunninda í sveitarfélögunum.

Mánaðarlaun sveitarstjórnarmanna eru í flestum tilvikum á milli 100 og 199 þúsund krónur á mánuði. Nefndarlaun eru yfirleitt á bilinu 10 til 29 þúsund krónur.

Í Mosfellsbæ voru íbúar 9.783 í byrjun árs 2017.
Í Mosfellsbæ voru íbúar 9.783 í byrjun árs 2017. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarfélög með fleiri en 5.000 íbúa

Níu sveitarfélög á Íslandi hafa fleiri en 5.000 íbúa og svöruðu sjö þeirra. Heildarmánaðalaun framkvæmdastjóra í sveitarfélögunum eru í fjórum tilvikum 1.400 til 1.599 þúsund, í tveimur tilvikum 1.600 til 1.699 þúsund kr. og í einu tilfelli 2.100 til 2.199 þúsund á mánuði.

Hlunnindi framkvæmdastjóra í sveitarfélögum eru misjöfn, eða frá 50 til 99 þúsund krónum á mánuði upp í 150 til 199 þúsund krónur á mánuði. 

Mánaðarlaun sveitarstjórnarmanna vegna starfa í sveitarstjórn eru í flestum tilvikum á bilinu 100 til 300 þúsund krónur. 

Í þremur sveitarfélögum er greidd þóknun fyrir hvern fund hjá nefndum, í þremur er greitt bæði fyrir hvern fund og föst fjárhæð á mánuði og í einu tilviki er einungis greidd föst fjárhæð mánaðarlega. Greiðslur fyrir hvern nefndarfund eru í einu tilviki 10-19 þús.kr., í tveimur tilvikum 20-29 þús.kr., í tveimur tilvikum 40-49 þús.kr. og í tveimur tilvikum yfir 50 þús.kr

Skýrsluna má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert