Þarf að fara að ræsa gröfurnar

Lögregla rannsakar tildrög slyssins á Vesturlandsvegi á mánudagskvöld.
Lögregla rannsakar tildrög slyssins á Vesturlandsvegi á mánudagskvöld. mbl.is/Valli

„Ég er búin að fara nokkuð oft upp á Vesturlandsveg og nú þarf bara að fara að girða sig í brók og ræsa gröfurnar,“ segir Sævar Helgi Lárusson, rannsóknarstjóri á umferðarsviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem fer með rannsókn banaslyssins sem varð á Vesturlandsvegi á mánudagskvöld.

Einn maður lést og níu slösuðust, þar af fjórir alvarlega, þegar fólksbíll og sendibíll lentu í árekstri. Tveir þeirra eru enn á gjörgæsludeild.

Sævar Helgi segir rannsókn á tildrögum slyssins enn vera í gangi. „Við reynum að finna út úr því hverjar orsakir þess voru,“ segir hann en lögregla og Rannsóknarnefndin héldu rannsókn sinni á slysstað áfram í gær.

Er þetta annað banaslysið á Vesturlandsveginum það sem af er árinu, en einn maður lést í upphafi þessa árs. Varð það slys skammt frá þeim stað sem bílarnir rákust saman á mánudag.

Sigþór Magnússon, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, gagnrýndi ástand vegarins í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

„Vegurinn er kominn á tíma“

Er Sævar Helgi er spurður út í aðstæður vegarins á slysstað, segir hann: „Vegurinn er kominn á tíma. Hjólför eru orðin nokkuð djúp og vegmerkingar farnar að mást af eins og víða á vorin. Ég er búin að fara nokkuð oft upp á Vesturlandsveg og nú þarf bara að fara að girða sig í brók og ræsa gröfurnar,“

Líkt og með aðrar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu þá sé orðið brýnt að fara í aðgerðir. „Það eru held ég allir sammála um það,“ segir hann.

Þörf sé á að aðgreina akstursáttir á Kjalanesinu. „Nefndin hefur reglulega lagt það til í lokaskýrslum um slys sem hafa orðið á þessum slóðum að það sé skoðun nefndarinnar að það sé mjög mikilvægt að aðgreina akstursáttir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert