Ánægð með stjórnarsamstarfið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er jafnframt formaður þjóðaröryggisráðs.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er jafnframt formaður þjóðaröryggisráðs. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ánægð með stjórnarsamstarfið og segir það ganga vel. Alltaf sé erfitt að vera í ríkisstjórn segir hún og vísar til fylgistaps í kjölfar síðasta stjórnarsamstarfs flokks hennar.

Hún segir að allt önnur menning sé innan Sjálfstæðisflokksins heldur en hjá Vinstri grænum. Katrín líkti þessu við það sem kom fram fyrir nokkrum árum varðandi það hvernig leiksýningar félagar í þessum flokkum vildu sjá. 

Fólk sem er í VG vildi helst sjá sýningar sem vöktu með þeim samviskubit og reiði en fólk í Sjálfstæðisflokknum vildi sjá sýningar þar sem það gat hlegið allan tímann. Katrín segir að þetta segi sína sögu um ólíka menningu meðal flokkanna. Katrín Jakobsdóttir var gestur í morgunþætti Rásar 1 í morgun.

Hún ræddi meðal annars um samkomulag um þinglok seint í gærkvöldi og eins frumvarp til laga um sjávarútvegsmál. Frumvarpið hafi komið of seint fram líkt og stjórnarandstaðan hafi sagt. Áfram verði unnið að fjármálaáætlun þar sem tekið er á málum sem forsætisráðherra segir mjög mikilvæg, heilbrigðismálunum. 

Spurð um gengi VG í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum segir Katrín að VG hafi aldrei náð að festa sig jafn-vel á sveitarstjórnarstiginu og í landsmálum. Hún segir fulla ástæðu fyrir flokkinn að fara yfir stöðuna í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna. Hún sagði að ríkisstjórnarsamstarfið hefði haft neikvæð áhrif á stöðu VG í kosningunum en margt annað hafi þar áhrif. 

Katrín segir að eitt það besta við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sé að átök fari fram fyrir opnum tjöldum, ekki í lokuðum bakherbergjum. Hún heyri því miður ekki eins mikið í sínum flokksfélögum og hún vildi vegna álags í vinnu. Eðlilegt sé að gagnrýni komi fram varðandi stjórnarsamstarfið en flokkurinn standi saman og samvinna hafi verið um samstarfið. 

Katrín er yfirlýstur hernaðarandstæðingur en hún mun mæta sem forsætisráðherra á leiðtogafund NATO. Hún segir að flestir viti hennar afstöðu, þar á meðal Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, enda er hann gamall félagi hennar. Hún mun ávarpa fund NATO sem forsætisráðherra Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert