Vill upplýsingar um „hálfnakið fólk“ á Alþingi

Sigmundur vill meðal annars fá að vita hvort þetta sé …
Sigmundur vill meðal annars fá að vita hvort þetta sé til marks um að vænta megi tilslakana á klæðaburði þingmanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur sent fyrirspurn til forseta Alþingis vegna gjörnings í tilefni opnunar sýningarinnar Demoncrazy á Listahátíð í Reykjavík, þar sem berbrjósta konur gengu frá Alþingishúsinu að Listasafni Íslands. Einnig voru teknar myndir af konunum berbrjósta inni í þinghúsinu og í anddyri þess.

Sigmundur virðist vera ósáttur við að Alþingishúsið sé nýtt í þessum tilgangi, en hann spyr meðal annars hver hafi veitt leyfi fyrir því „að hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn gera við þingsetningu?“

mbl.is/Arnþór

Þá spyr hann forseta Alþingis hvort hann telji slíka notkun á þinghúsinu og þinghefðum til þess fallna að auka virðingu Alþingis og vill fá að vita hvort leyfisveitingin hafi verið tengd stuðningi forseta þingsins við málstað þeirra sem leyfið fengu.

Sigmundur spyr jafnframt hvort aðrir hópar megi vænta þess að fá leyfi fyrir sams konar viðburðum, óháð því hvort forseti Alþingis er fylgjandi málstað þeirra eða ekki og hvort leyfisveiting sé til marks um að vænta megi frekari tilslakana á reglum um klæðaburð alþingismanna.

Borghildur Indriðadóttir er listamaðurinn sem stendur á bak við Demoncrazy á Listahátíð, en hluti sýningarinnar er myndlistarsýning á Austurvelli sem sýnir berbrjósta konur standa fyrir framan málverk af karlmönnum.

Borghildur við eitt listaverka úr sýningunni Demoncrazy sem nú stendur …
Borghildur við eitt listaverka úr sýningunni Demoncrazy sem nú stendur yfir á Austurvelli. mbl.is/Árni Sæberg

„Ber­brjósta ung­ar kon­ur standa ákveðnar og sterk­ar við mál­verk, ljós­mynd­ir og stytt­ur af karl­mönn­um í op­in­ber­um rým­um. Þær horfa beint í mynda­vél­ina og ögra þeirri jakkafa­ta­klæddu, miðaldra og karl­kyns ímynd valds­ins sem þær hafa al­ist upp við. Þær eru komn­ar til að vera. DEMONCRAZY er röð ljós­mynda í yf­ir­stærð sem sýnd­ar eru á Aust­ur­velli,“ seg­ir á vef Lista­hátíðar um ljós­mynda­sýn­ing­una.

Skiptar skoðanir hafa verið á myndunum, en Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, sagði í samtali við Morgunblaðið á laugardaginn erfitt að átta sig á gjörningnum og vísaði þar til myndar af þremur berbrjósta konum sem stilltu sér upp fyrir framan bikaraskáp KR. í bakgrunni voru myndir af sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir KR í gegnum tíðina. Sagðist Jónas telja að KR væri félag jafnréttis en ekki táknmynd feðraveldisins. Bæði karlar og konur væru þar velkomin og fjöldi sjálfboðaliða af báðum kynjum hefði unnið fyrir félagið. Hann skildi því ekki tenginguna við feðraveldið. Þar að auki hafi myndirnar verið teknar án leyfis frá yfirstjórn KR.

Borghildur sagðist í samtali við Morgunblaðið fagna umræðu um myndirnar og fannst henni túlkun KR áhugaverð. Sagði hún leyfi hafa verið fengið hjá húsverði félagsins áður en myndirnar voru teknar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert