Fái leyfisbréf þvert á skólastig

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þess efnis að 21. grein laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla um leyfisbréf til kennslu þvert á skólastig komi til framkvæmda en áratugur sé frá því að lögin hafi tekið gildi.

Samkvæmt lagagreininni skal veita kennurum leyfisbréf til kennslu á aðliggjandi skólastigi til viðbótar grunnleyfisbréfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Á grundvelli þessa skorar stjórn Félags framhaldsskólakennara á mennta- og menningarmálaráðherra að útfæra lagagreinina nú þegar og veita kennurum með leyfisbréf til kennslu í framhaldsskóla jafnframt full réttindi til kennslu í 8.-10. bekk grunnskóla.“

Stjórn Félags framhaldsskólakennara tekur jafnframt eðlilegt að sambærileg heimild verði fyrir kennara með leyfisbréf sem grunnskólakennari og hafa lokið að minnsta kosti 120 námseininga sérmenntun í kennslugrein til kennslu á sérsviði sínu í byrjunaráföngum framhaldsskóla. Haft er eftir Guðríði Arnardóttir, formanni Félags framhaldsskólakennara, að alvarlegur kennaraskortur sé í grunnskólum landsins. Á meðan fækki stöðugildum framhaldsskólakennara vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs.

Fá greidd laun sem leiðbeinendur

„Vel menntaðir og reyndir framhaldsskólakennarar gætu því starfað við kennslu sinnar greinar í efstu bekkjum grunnskólanna. Í dag fá framhaldsskólakennarar ekki menntun sína metna að verðleikum og eru launasettir sem leiðbeinendur í komi þeir til starfa í grunnskólana. Með því að útfæra leyfisbréf framhaldsskólakennara og veita þeim samhliða full réttindi til kennslu í efstu bekkjum grunnskólans er unnt að bjóða þeim sömu kjör og starfsöryggi grunnskólakennara og freista þess að laða þá til framtíðarstarfa.“

Guðríður segir að brýnt að leita allra leiða til að vinna á kennaraskorti í grunnskólum landsins og styrkja innviði þeirra. „Þar vegur þyngst að laða að fleiri hæfa og vel menntaða kennara til kennslu í grunnskólunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert