Frumvarp um persónuvernd samþykkt

mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþingi samþykkti nú í kvöld frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Um er að ræða ný lög en með gildistöku laganna verða auk þess gerðar breytingar á 42 öðrum lögum. Frumvarpið var samþykkt með 50 atkvæðum gegn 7 en 3 greiddu ekki atkvæði.

Var þetta síðasta mál á dagskrá þingsins og þingfundi því slitið í kjölfarið. Alþingi mun svo koma aftur saman 17. júlí næstkomandi þar sem reynt verður að komast að samkomulagi um mál sem afgreidd verða á hátíðarfundi á Þingvöllum þann 18. júlí vegna 100 fullveldisafmælis Íslands.

Markmið persónuverndarlaganna er að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Frumvarpið er umdeilt, ekki síst vegna þess hve seint það kom til kasta Alþingis og umsagnaraðilar höfðu mjög skamman tíma til að skila inn umsögnum. Fjölmargar umsagnir bárust því eftir að umsagnarfrestur var liðinn. Margir þingmenn tjáðu sig í pontu og gagnrýndu þann knappa tíma sem frumvarpið fékk í þinginu. Þeir sem styðja frumvarpið segja það gríðarlega réttarbót.

Með frumvarpinu er lagt til að ný reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga verði innleidd í íslenskan rétt. Reglugerðin felur í sér mjög umfangsmiklar breytingar á sviði persónuverndar og með henni eru grundvallarréttindi einstaklinga í stafrænum heimi styrkt og jafnframt greitt fyrir þróun á hinum innri stafræna markaði með því að einfalda reglur fyrir fyrirtæki. Samþykkt frumvarpsins felur því í sér breytt og aukið hlutverk innlendra eftirlitsyfirvalda, aukin réttindi einstaklinga, nýjar öryggisvottanir og sektarheimildir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert