Klár í að veita aðhaldið sem vantaði

Eyþór Arnalds segist farinn úr stjórnum allra fyrirtækja nema eigin …
Eyþór Arnalds segist farinn úr stjórnum allra fyrirtækja nema eigin eignarhaldsfélags og beinna dótturfyrirtækja þess. mbl.is/Arnþór

Eyþór Arnalds, oddviti og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í samtali við blaðamann mbl.is að hann sé farinn úr stjórnum allra fyrirtækja nema síns eigin eignarhaldsfélags og dótturfyrirtækja þess. Þá segir hann ekkert annað standa til hjá sér en að starfa sem borgarfulltrúi allt kjörtímabilið.

Eftir að Eyþór bauð sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðiflokksins í upphafi árs fjallaði Stundin með ítarlegum hætti um tengsl hans við viðskiptalífið, en samkvæmt þeirri samantekt var Eyþór þá í stjórnum 26 fyrirtækja og þar af stjórnarformaður í átta þeirra.

Eyþór sagði við Stundina í janúar að hann myndi gera það sem eðlilegt væri til þess að forðast hagsmunaárekstra og „fara út úr öllu“, en Eyþór er til dæmis hluthafi í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is.

Hann segist þó hafa stigið úr stjórn Árvakurs eins og margra annarra fyrirtækja og hefur áður lýst því yfir að hann ætli að losa sig við hlut sinn í útgáfufélaginu, enda fari ekki saman að vera í stjórnmálum og eiga hlut í fjölmiðlum.

„Ég er búinn að stíga þessi skref og mun aðskilja þetta eins og aðrir. Ég er nú ekki einn um það að hafa hagsmuni, það eru borgarfulltrúar sem eru með húsnæði í útleigu og sitja í stjórnum ýmissa fyrirtækja. Ég geri ráð fyrir því að við pössum þetta öll,“ segir Eyþór, en borgarfulltrúum ber samkvæmt siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg að forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekja athygli á því ef hætta er á slíkum árekstrum.

Stendur ekkert annað til en að sitja í borgarstjórn

Þær raddir hafa heyrst í umræðu á samfélagsmiðlum, sem spá því að Eyþór muni ekki sitja í borgarstjórn út kjörtímabilið. Þeir sem þetta segja nefna að það sé óspennandi hlutskipti að vera í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem getan til þess að hafa áhrif sé takmörkuð.

Blaðamaður spurði Eyþór út í þessar vangaveltur og það hvort hann ætlaði að sitja í borgarstjórn allt kjörtímabilið þrátt fyrir að hafa ekki náð að komast í þá stöðu að leiða meirihluta í borginni.

„Það stendur ekkert annað til, en markmiðið er áfram að fella þennan framlengda meirihluta,“ segir Eyþór við þeirri spurningu. Hann segir að þessar vangaveltur um það hvort hann endist í minnihluta borgarstjórna séu kannski  „óskhyggja“ hjá mörgum, en bætir við að margir hafi einnig haft þá óskhyggju að fyrri meirihlutinn í borginni myndi halda. Það hafi hins vegar ekki gengið upp.

Hann segir að blaðamaður ætti ef til vill frekar að beina þessari spurningu til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

„Sagan segir að hann ætli í landsmálin og að hann þurfi að fara úr borgarstjórnarstólnum til þess að fara inn í landsmálin,“ segir Eyþór og bætir við að honum þætti fróðlegt að heyra svarið.

Aðhald frá bæði hægri og vinstri

Eyþór segir að hann hafi náð þeim tveimur markmiðum sem hann setti sér fyrir kosningar, en þau voru að fella meirihlutann í borginni og að Sjálfstæðisflokkurinn yrði aftur stærstur. Hann segir að alltaf hafi verið möguleiki á því að eftirleikurinn yrði með þeim hætti að „gamli meirihlutinn myndi halda áfram með því að vera reistur við.“

Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds saman á framboðsfundi í …
Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds saman á framboðsfundi í Ármúla fyrir kosningar. mbl.is/Hari

„Viðreisn ákvað að taka að sér það hlutverk og því getum við ekki stjórnað. Ég held hins vegar að þessir fjórir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu séu mjög öflugir og eigi eftir að koma með öflugt aðhald á næsta fundi og ég held að þetta sé spennandi staða, það eru þarna ólíkir flokkar sem geta gagnrýnt þennan meirihluta bæði frá hægri og vinstri og veitt það aðhald sem kannski vantaði á síðasta kjörtímabili,“ segir Eyþór.

Bandalag uppreisnarmanna gegn hinu illa keisaraveldi

Er nýr borgarstjórnarmeirihluti var kynntur í Breiðholti á þriðjudagsmorgun hafði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar orð á því er leiðtogar flokkanna voru að skrifa undir meirihlutasáttmálann að það vantaði tónlist við tilefnið.

Því svaraði Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna umsvifalaust með því að humma hluta úr þemalagi illmennisins Svarthöfða úr Star Wars myndunum, The Imperial March.

Eyþór segir á léttu nótunum að ef að þetta lagaval sé í anda þess koma skal í störfum borgarstjórnarmeirihlutans, þá hlakki minnihlutann til að setja sig í spor bandalags uppreisnarmanna, sem í Stjörnustríðsmyndunum berjst gegn uppgangi og áhrifum hins illa keisaraveldis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert